144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ákveðin kaldhæðni að hér er í gangi Fundur fólksins við Norræna húsið þar sem fólk á að ræða saman um málin. Þingmenn eiga að koma út á meðal fólks, láta sjá sig og ræða málin. Eftir tæpan hálftíma er umræða um samstarf Norðurlandanna í heilbrigðismálum. Á ég að fara og tilkynna að okkar framlag sé að senda starfsmenn í verkfalli þangað? [Hlátur í þingsal.] Við erum í dapurlegri stöðu þar sem nú er verið að segja: Það verður að setja bann á þetta verkfall. Af hverju? Jú, það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekkert gert í málunum. Við höfum óskað eftir að fá að ræða þessi mál. Hver er afstaða stjórnarinnar til opinberra starfsmanna? Hver er afstaðan til heilbrigðismálanna? Hvað viljum við í þessu samfélagi? Við fáum enga umræðu um það. Svo koma þeir og segja: Við komumst ekkert áfram vegna þess að aðilar vilja ekki tala við okkur. Það eru engin boð á markaðnum. (Forseti hringir.) Þetta er algjörlega óþolandi staða og fórnardýrin eru auðvitað allir þeir sem hér líða á spítölum landsins og það er í boði ríkisstjórnarinnar.