144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

Afbrigði um dagskrármál.

[14:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum sem sagt ekki búin að hefja þessa atkvæðagreiðslu og ég vil brýna það fyrir þingmönnum að ef einn þriðji hluti segir: Nei, við skulum vísa þessu máli frá ríkisstjórninni aftur til ríkisstjórnarinnar þannig að hún geti setið með það í fanginu yfir helgina og hugsað sinn gang, þá getum við gert það. Við höfum dagskrárvaldið núna, minni hlutinn í þinginu, einn þriðji.

Ég heyrði að klappað var á pöllunum þar sem sitja heilbrigðisstarfsmenn og starfsmenn sem þessi lög eiga að falla á. Ég vona virkilega að við nýtum þetta tækifæri. Það gefst ekki oft. Ég mun að sjálfsögðu segja nei við því að þetta mál sé tekið á dagskrá með svona gríðarlegu hraði, og senda það í fangið á ríkisstjórninni þannig að það fólk sem situr á pöllunum, er fyrir utan og úti í samfélaginu geti fengið að skoða þetta mál betur yfir helgina ef það kemur aftur hingað inn í þingið eftir helgi. [Lófatak á þingpöllum.