144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það hefði nú farið betur á því að forseti hefði átt fund með þingflokksformönnum einmitt til að fara yfir fyrirætlanir sínar. Ég tel það ekki eftir mér að vera hér á kvöldfundi til að ræða mikilvægt mál, en það er líka mikilvægt fyrir almenning í landinu að umræða um þetta mál fari fram fyrir opnum tjöldum. Og þó að það sé bjart allan sólarhringinn getum við eiginlega ekki talað um dagsbirtu ef það er ætlunin að afgreiða þessi mál hér þegar flestir eru sofandi í rúmum sínum, þannig að auðvitað þarf að fara yfir það hvernig halda á hér á málum í framhaldinu. Við getum að sjálfsögðu lengi tekið þátt í umræðunni, en ég ítreka það að hér eru uppi ýmsir fletir sem skoða þarf vandlega í vinnu nefndarinnar og nefndin þarf að fá tíma til að vinna þetta mál almennilega.