144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er með spurningu til hæstv. ráðherra kjaramála og heilbrigðismála, Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Í 4. gr. frumvarpsins segir: Lög þessi öðlast þegar gildi. Í 1. gr. kemur fram að verkfallsaðgerðir o.s.frv. séu óheimilar frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms samkvæmt 2. gr., ef til skipunar hans kemur. Með öðrum orðum, þau stjórnarskrárvörðu réttindi samkvæmt 74. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hér á að fara að skerða eru færð yfir í vald þriggja manna nefndar Hæstaréttar. Það er hennar að ákveða hversu lengi þau verða skert. Hvernig getur það staðist að gætt sé meðalhófs í því að svipta menn þessum mikilvægu helgu stjórnarskrárvörðu réttindum? Hefur gerðardómur þar með sjálfdæmi um það hvort opinberir starfsmenn, háskólamenn og hjúkrunarfræðingar verða án samnings- og verkfallsréttar í eitt ár, tvö ár eða þrjú ár? Í 3. gr. er meðal annars vísað í kjarasamninga sem gefur til kynna að gerðardómurinn svokallaði sem er ekki gerðardómur (Forseti hringir.) fulltrúa deiluaðila og hlutlauss oddamanns heldur nefnd í Hæstarétti hafi sjálfdæmi um það hversu lengi hann tekur þessi réttindi af mönnum.