144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvers vegna komu ekki peningarnir sem hér var lofað? Vegna þess að við erum enn að vinna okkur að þeim grunni til að geta lagt þetta fram af einhverju skynsamlegu viti. Ég fagna því þegar hv. þingmaður lýsir því yfir að hann hyggist standa með sjúklingum í þeirri umræðu sem við erum að vinna með. (Gripið fram í.)

Ég lýsti hér áhyggjum mínum af framtíðaráhrifunum af þessari ákvörðun en ég lýsti því líka að það væri sú áhætta sem ég tæki fremur af þeirri óvissu sem af þessari ákvörðun leiddi. Fremur kýs ég að koma sjúklingum í öruggt skjól og taka svo á þessari áhættu framtíðarinnar til lengri tíma. (Gripið fram í.) Jú, að sjálfsögðu, eins og hv. þingmaður veit er nóg af krafti í okkur urriðaveiðimönnum, klárlega. Það þarf ekki að frýja mér neins í því.

Þetta vil ég segja út af sérgreinalæknasamningunum: Í tíð hv. þingmanns í síðustu ríkisstjórn var kosið að sleppa því að semja við sérgreinalækna en velta kostnaðinum (Forseti hringir.) úr 29% upp í 42% á sjúklinga í staðinn, (Gripið fram í.) þannig að sérfræðingarnir fengu að skammta sér launin sín sjálfir. (ÖS: Þannig að verkfallið er mér að kenna?)Nei.