144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:20]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Það flaug ein spurning hér í huga mér. Ég hef hlustað á flestar ræður hér í dag og í einu orðinu tala menn um framúrskarandi heilbrigðiskerfi en að hruni komið og við viljum fá nýtt. Hér tónar því ekki saman og það á í sjálfu sér við um alla umræðuna og um heilbrigðiskerfið almennt. En ég vil spyrja — (ÖS: Þú hefur þá ekki hlustað á mína ræðu.) Jú, ég heyrði hana, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, (Gripið fram í: … fyrsta flokks.) og hlustaði af athygli.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, því að ég veit að lýðræðisást Pírata er mjög mikil og ég fór að huga um skipan gerðardóms. Þar er skipan þriggja einstaklinga, sem sagt dómsvaldið — væntanlega viljum við hugsa dómsvaldið sem hlutlausan aðila í öllum tilfellum. Segjum sem svo að við skipum gerðardóm með einum aðila frá hvorum deiluaðila, ríkinu og BHM eða hjúkrunarfræðingum, og svo einum hlutlausum aðila, eins og hefðbundin skipan gerðardóms er. Þá fer ég að hugsa um valdið sem við setjum í hendur þessa eina einstaklings og lýðræðishugsunina á bak við það.

En af því að þingmanninum var tíðrætt um heilbrigðiskerfið almennt, þá er það sannarlega ekki gallalaust, af því að hún vitnaði í vandann við að skipa heilsugæslulækna. Búið var að auglýsa eftir heilsugæslulækni á Þórshöfn í átta ár, hann er ekki kominn enn, þannig að það er í sjálfu sér alveg rétt, það er ýmislegt sem þarf að skoða. Tökum dæmi um geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlandi. Ef þú er 17 ára og þig vantar aðstoð varðandi geðræn vandamál þá er bara mjög erfitt að komast að, en um leið og þú verður 18 ára þá ertu kominn á geðdeild.

Ég var með þessa einu spurningu varðandi skipan gerðardóms. Og svo náttúrlega um lausnina í því hvernig við gerum betra kerfi. Það er auðvitað hvernig við fáum fólkið til að halda áfram að búa á Íslandi, það hlýtur að vera með því að kjósa Pírata.