144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Nákvæmlega vegna þess að hér er talað um, eins og hv. þingmaður nefndi, menntun, störf, vinnutíma og ábyrgð, af hverju er 1. maí settur inn? Af hverju er það ekki strokað út? Ég hélt þetta væru bara hrein og klár mistök og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar mundi stroka þetta út. Af hverju heldur hann því? Það eru einhver skilaboð í því. Meiri hlutinn skuldar okkur að segja þá af hverju þeir halda þessu inni og hafa hafnað því að taka það að minnsta kosti upp í nefndinni að horfið verði frá þessari dagsetningu. Það er ekki sjáanleg önnur skýring en sú að einir kjarasamningar eigi að leggjast undir, það eru samningar aðila vinnumarkaðarins, sem settu þar að auki inn ákveðin almenn rauð strik sem þýða það að ef samningar fara fram úr á tímanum þá verði þeir samningar sérstaklega endurskoðaðir.

Það kom líka ágætlega fram í nefndinni að það er engin hætta af þessum kjarasamningum hvað varðar stöðugleika, engin. Hættan skapast ef þeir smita yfir á aðra. Það þýðir að ríkið hefur valið sér hvar þeir ætla að láta verja stöðugleika. Það er hér, hjá kvennastéttunum okkar, heilbrigðisstéttunum, sem á að verja stöðugleikann núna og taka út baráttuna með því að halda laununum niðri hjá almenningi, hjá almenna markaðnum. Nú á að setja varnarlínur þarna. Það er þetta sem við erum að gagnrýna.

Hitt sem kemur varðandi lengdina. Það kom líka fram hjá nefndinni í morgun í tali hvernig ákvarðanir hefðu verið teknar um frumvarpið og væntingar m.a. frá fjármálaráðuneyti og þeim sem sömdu frumvarpið, það er að samningarnir verði sem lengstir, að minnsta kosti eins og samið hefur verið á almenna markaðnum, helst lengri. Við erum að verjast þessu líka. Við erum að tala um neyðarúrræði. Það á að vera til skamms tíma sem á að verða til þess að við getum samið á markaði. Það er meginmarkmiðið.

Ég skora á ykkur að koma í lið með okkur að reyna að fara þá leið ef hægt er en ekki að fara að búa til einveldistilburði á vegum hæstv. ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)