144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður metur nauðsyn þess að fara í lagasetningu sem þessa þarf maður auðvitað að horfa á alla þá hagsmuni sem eru í húfi. Vissulega höfum við áhyggjur af því og höfum heyrt áform og áhyggjur manna um að það verði flótti úr stéttinni. Það ber hins vegar ekki að horfa fram hjá því að við þurfum einnig að horfa á hagsmuni annarra, hagsmuni sjúklinga. Það er eitt af því sem landlæknir hefur svo skýrt vakið athygli á og krafist þess að gripið sé til aðgerða af einhverjum toga, eins og (Gripið fram í.) við erum að gera hér í dag. (Gripið fram í.) Þannig liggur einfaldlega í málunum. (Gripið fram í.) Tryggingin liggur hins vegar ekki fyrir. Við höfum átt orðaskipti við ráðherra í þessum sal. Það er því miður ekki séríslenskt vandamál að erfitt sé að manna stöður. Þegar maður hittir þingmenn annarra þjóða þá virðist það vera vandamál víða í Evrópu. Um það þurfum við að tala hér. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að halda því til haga. Við skulum eiga umræður um það í framhaldinu.

Hins vegar er það mat nefndarinnar eftir að hafa fengið gesti, m.a. landlækni, á okkar fund að nauðsynlegt sé, því miður, að grípa til þessara aðgerða.