144. löggjafarþing — 130. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan eða minni hluti Alþingis lagði fram tillögu um að vísa þessu máli frá og hér er komin fram rökstudd dagskrártillaga um slíka frávísun. Stjórnarandstaðan hefur lagst alfarið gegn þessu máli, telur að þarna sé verið að ganga á heilagan rétt stéttarfélaga varðandi verkfallsaðgerðir og meðal annars gengið svo langt að sett er verkfallsbann á félög sem alls ekki eru í verkfalli. Ríkisvaldið setur þarna lög sem annar aðili að deilu og skorar um leið á sjálft sig til að ganga til samninga í deilunni. Þetta mál er allt með ólíkindum og það er miklu eðlilegra og er nauðsynlegt að menn fari í samningaviðræður og leggi fram meira fjármagn til þess að hægt sé að ná samningum og gangi frá þeim í snatri frekar en að ganga fram með þessum hætti. Ég mæli með þessari tillögu og leggst algjörlega (Forseti hringir.) gegn frumvarpinu, mæli með því að því verði vísað frá.