144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

lausn deilna í heilbrigðiskerfinu.

[15:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra fór í svari sínu við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur ekki alveg rétt með það hvað landlæknir sagði. Síðasta mánuðinn hefur landlæknir sent þessari ríkisstjórn þrjú bréf þar sem kemur alveg skýrt fram að ekki er lengur hægt að tryggja öryggi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og það þurfi að leysa þetta vandamál með einum eða öðrum hætti. Einum eða öðrum hætti, forseti.

Einn hátturinn er skammtímalausn, segir landlæknir. Hann segir ekki að setja eigi lög á verkföllin en hann nefnir það að ef þetta er ekki leyst með samningum sé það skammtímalausn. Þetta segir landlæknir. Svo er önnur leið sem er alveg ljós og það er náttúrlega að ná samningum. Slík lausn í síðasta mánuði hefði þýtt að því ástandi hefði verið afstýrt að ekki hefði verið hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Ríkisstjórnin sat með það í fanginu í mánuð. Það hefði verið hægt að leysa það en þá hefði þurft að forgangsraða skatti landsmanna í heilbrigðiskerfið. Það hefði verið hægt. Það er önnur leið og landlæknir sagði ekki á þeim tíma að það yrði að setja lög á verkföll. Landlæknir segir að það verði að stöðva verkföll, koma í veg fyrir áframhaldandi verkföll með einum eða öðrum hætti þannig að því sé alveg skýrt haldið til haga.

Sú skammtímalausn sem þingmenn meiri hlutans settu með því að setja lög á verkfallið, skammtímalausn segir landlæknir, er meira að segja það mikil skammtímalausn að það er aftur komið hættuástand í heilbrigðiskerfinu af því að hjúkrunarfræðingar ætla að segja upp í stórum stíl. (Forseti hringir.) Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra metið þá hættu? Hefur hann ekki talað við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana á Íslandi og metið þá hættu? Hver er hættan? Hefur heilbrigðisráðherra svarið?