144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

uppsagnir í heilbrigðiskerfinu.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála þeirri fullyrðingu sem kom fram í máli hv. þingmanns að ríkið hafi ekki gert neinar breytingar á tilboðum sínum til samninganefndarinnar á 24 samningafundum. Það er langur vegur þar frá að slíkur málflutningur sé boðlegur því að hann er rangur, það er ekki innstæða fyrir honum. Ég veit að ríkið hreyfði sig eðlilega og var ekkert í neinum sýndarviðræðum eins og hér virðist vera reynt að gefa til kynna. Þvert á móti var, eins og hér var lýst, síðasta boð frá ríkinu hátt í 20% launauppbót plús aðrir þættir sem lutu að því að styrkja fjárhag stofnana.

Það þarf tvo til að semja. Báðir aðilar í þessari stöðu hafa sín mörk. Því miður var tíminn að mínu mati löngu þrotinn. Þetta er algjört þrautaráð en ég vonast til að þetta hreyfi við báðum samningsaðilum og að við nýtum þann tíma (Forseti hringir.) sem fram undan er, til 1. júlí, til að reyna að landa samningi sem nauðsynlegur er í þessari deilu.