144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[11:27]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Forseti Íslands. Alþingismenn. Góðir gestir í þinghúsi og þeir sem heima sitja. Innilega til hamingju með daginn.

„Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona, það á að kjósa mig af því að ég er maður,“ sagði fyrrverandi forseti Íslands fyrir 35 árum síðan, næstum upp á dag. Ég man þessi orð og mikilvægi þeirra fyrir mig, sjálf rétt orðin 13 ára og fylgdist af forvitni með þessari konu, fannst hún bæði hugrökk og óhefðbundin en hef sjálfsagt líkt og margir aðrir talið hana ansi bratta að bjóða sig fram til forseta. En það gerðist. Vigdís varð forseti og um leið ein helsta fyrirmynd íslenskra kvenna. Og fyrir stelpu eins og mig og fyrir stelpur eins og okkur sem sitjum hér nú var hún ekki aðeins kosin fyrsta konan til að vera forseti heldur fólst í henni fyrirheit að konur, líkt og aðrir menn, ættu að hafa val, frelsi og tækifæri, ekki bara til að kjósa heldur líka til að vera kosnar.

Flest eigum við Íslendingar margar svona minningar, margar góðar jafnréttisminningar. Kvennafrídagurinn, kvennaframboðið, sömu réttindi samkvæmt stjórnarskrá, sami réttur til fæðingarorlofs, fyrsti borgarstjórinn, fyrsti forsætisráðherrann, fyrsti biskupinn, fyrsti forsetinn og fjölmargt fleira. Allt árangur af íslenskri jafnréttisbaráttu sem svo víða má merkja, ekki síst ef við dveljum aðeins í þessum sal og sögu hans og persónulegri sögu okkar sjálfra. Árangurinn á einum mannsaldri er nefnilega hreint ótrúlegur. Þannig sat engin kona í þessum sal, engin kona á Alþingi árið sem móðir mín fæddist og fyrir þann tíma höfðu aðeins tvær hlotið slíka kosningu. Árið sem ég fæddist sat ein kona í þessum sal en þá höfðu alls sex konur setið á Alþingi. En nú, þegar dætur mínar og börn þessa lands vaxa úr grasi, sitja hér 27 konur og eru rúmlega 40% þingmanna. Og svipuð þróun hefur verið á mörgum öðrum sviðum íslensks samfélags.

Í mörg ár höfum við, eins og komið hefur fram hér, verið í röð þeirra ríkja sem best standa sig í jafnréttismálum. Árangur sem miklu skiptir og skýrist af mörgu og af mörgum. En það sem þó helst aðgreinir okkur frá öðrum er að stærstu áfangarnir í jafnréttisbaráttunni hafa náðst í sátt og með stuðningi og samstöðu allra stjórnmálaflokka. Kannski er það ein af ástæðum þess að okkur tekst svona vel að halda utan um árangurinn, varðveita hann, auka og miðla, líkt og sú tillaga sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir.

En svona hefur þetta, virðulegur forseti, auðvitað ekki alltaf verið. Í dag eru hundrað ár síðan konur fengu þann kosningarrétt sem flestir, en ekki allir, karlar fengu rúmum 70 árum fyrr. Og því er að baki löng og ströng barátta fyrir því sem við í dag teljum sjálfsagt og eðlilegt. Í dag er því tilefni til að þakka, þakka þeim sem stóðu gegn misrétti, með jafnrétti, þeim sem ruddu brautina og tóku slaginn, til dæmis í þessum sal, í sveitarstjórnum, í atvinnulífi, á heimilum og hvar sem því var við komið. Til þess þurfti án efa afar mikið hugrekki fyrir hundrað árum síðan. En tími slíks hugrekkis er ekki liðinn því enn er verk að vinna. Þess vegna skulum við líka í dag þakka þeim sem nú standa vaktina og setja mark sitt á umræðuna. Aðferðir þeirra geta virst óhefðbundnar, líkt og Vigdís fyrir nokkrum árum síðan, en lýsa engu að síður sama hugrekkinu og sömu hugsjóninni um tækifæri allra, óháð kynferði. En þangað til sá veruleiki blasir við bíður okkar allra það verk að halda áfram að gera betur. Viðfangsefnin eru, líkt og fram kemur í tillögunni sem hér er til umræðu, fjölmörg en helst þau að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur, eyða kynbundnum launamun og hvetja ungt fólk, ungar konur, unga karla, til lýðræðislegrar þátttöku.

Á þeim tímamótum sem þessi dagur í dag markar er það hugsanlega mikilvægasta verkefnið að senda skýr skilaboð til allra, kvenna og karla, um að kosningarrétturinn skiptir máli, um að þátttaka skiptir máli og að stjórnmál, eins fjarlæg, óspennandi og ómöguleg og þau kunna á köflum og stundum að virka, þau skipta máli. Og þau eru þess virði að gott fólk, góðir menn, konur og karlar, taki þátt og láti þau sig varða. Og þess vegna, einmitt þess vegna er svo mikilvægt að stjórnmálin, hin opinbera umræða og baráttan um hugmyndir, lausnir og leiðir, verði málefnalegri, sanngjarnari og kannski aðeins kvenlegri, mýkri og mildari en sú ásýnd sem birtist okkur nú næstum daglega hvort sem er úr þessum sal eða annars staðar þar sem menn koma skoðunum sínum áleiðis.

Virðulegur forseti. Ágætu áheyrendur. Á þessum degi skulum við vera stolt af því sem vel hefur verið gert, vera þakklát fyrir að búa í samfélagi sem hefur náð merkum og mikilvægum árangri þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Og það sem meira er, við getum verið bjartsýn um að gera enn betur í framtíðinni, ekki endilega vegna þess að allir í þessum sal eru sammála um að skapa forsendur til slíks heldur fyrst og fremst vegna þess að flestir menn þessa lands, karlar og konur, telja að þannig skuli það vera. — Gleðilega hátíð.