144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir þakkir hæstv. forseta til starfsmanna Alþingis vegna vinnu þeirra undanfarið í kringum afmæli kosningarréttar kvenna. Hingað er ég kominn upp undir þessum lið til þess að gera athugasemd við þá staðreynd að við erum nú að störfum hér á Alþingi og þetta eru orðnar einar þrjár vikur án nokkurrar starfsáætlunar, án þess að vitað sé hversu lengi þingstörf muni vera. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að ríkisstjórn landsins geri það upp við sig hver forgangsmál hennar eru til að ljúka þingstörfum og að hún hafi eitthvert plan um hvernig hún vill haga málum í þinginu. Við getum í sjálfu sér setið hér fram í september og er okkur ekkert að vanbúnaði hvað það varðar, en tíma starfsmanna Alþingis er illa varið sem þurfa á því að halda að komast í lögbundið sumarleyfi og það er ekki til fyrirmyndar hvað varðar góða stjórnarhætti ef ríkisstjórn hefur ekki forgang á hreinu og veit ekki hvað hún vill fá afgreitt frá þjóðþinginu. (Forseti hringir.) Ég hlýt að kalla eftir því að það sé rætt við forustu stjórnarandstöðunnar. Nú eru liðnir sex dagar (Forseti hringir.) með hátíðarhöldum og öðru og það hefur ekki verið talað við mig um nokkurn skapaðan hlut. Ég hlýt (Forseti hringir.) að kalla eftir því að menn leggi upp einhver plön um með hvaða hætti þinghald verði hér áfram í sumar.