144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp út af orðum hæstv. fjármálaráðherra og skilningi hans á því hvernig þingið virkar eða virkar ekki og sömuleiðis hugmyndum hans um lýðræðið sem ég hef margoft gagnrýnt og fleiri úr þessum ræðustól. Lýðræðið getur ekki afmarkast við einn bókstaf á fjögurra ára fresti til að segja allt sem maður hefur að segja um stjórnmál á landinu, það er fráleitt, enda höfum við Píratar og fleiri margítrekað stungið upp á ágætri, ódýrri, sjálfsagðri, lýðræðislegri, sanngjarnri og almennt góðri leið til þess að útkljá hin dýpstu ágreiningsmál á þinginu. Það er meira lýðræði, virðulegi forseti. Meira lýðræði. Það er ekki flókið. Það er mjög auðvelt að fara þá leið, en í stað þess erum við föst í þessum hefðbundnu þingstörfum sem hæstv. fjármálaráðherra þekkir mætavel, getur ekki komið hingað og látið eins og þetta komi honum á óvart. Varla. Það þarf meira lýðræði til að útkljá þessi erfiðu mál.

Virðulegi forseti. Eitt að lokum, eða næstsíðast, það er algjörlega sjálfsagt að við höfum að minnsta kosti starfsáætlun, það er sanngjörn krafa, alveg sama hverjum þetta er að kenna.

Að lokum legg ég til (Forseti hringir.) að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.