144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bjó í sama draumaheimi og forseti. Miðað við það sem hann segir hér, að hann voni að þetta fari nú allt saman að gerast, þá bjó ég í þeim sama draumaheimi þangað til um helgina þegar ég áttaði mig á því að það er enginn vilji til þess að ganga til samninga um með hvaða hætti þingstörfum skuli ljúka. Það þýðir þá að við verðum að fá starfsáætlun. Það er ekki hægt að láta sig dreyma áfram, það eru liðnar þrjár vikur, þetta er orðið vandræðalegt. Þetta er ekki bara vandræðalegt fyrir forseta, þetta er vandræðalegt fyrir okkur öll. Þá er best að horfast í augu við veruleikann, setja starfsáætlun og hefja hér störf eins og venjulegt fólk.

Það gengur heldur ekki lengur, til dæmis í morgun hefðum við getað nýtt tímann með því að funda um stór mál í umhverfis- og samgöngunefnd. Við gerðum það ekki vegna þess að ekki er í gildi nein fundatafla og ekki er í gildi nein starfsáætlun þannig að tími okkar nýtist illa. Ég fer fram á það, ég er hætt að óska eftir því, ég fer fram á það að forseti (Forseti hringir.) setji hér starfsáætlun og viðurkenni það fyrir sjálfum sér og (Forseti hringir.) okkur hinum að honum hefur mistekist (Forseti hringir.) í því að reyna að ljúka hér þingi.