144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hissa þótt forseta skjöplist í einstökum efnum þegar við erum komin hér vel inn í sumarið.

Fram kemur í 10. gr. þingskapa í 3. mgr. um sumarhlé, þá segir, með leyfi forseta:

„Sumarhlé þingsins er frá 1. júlí til 10. ágúst og skal ekki boða til nefndafunda á þeim tíma nema brýn nauðsyn krefji.“

— Nema brýn nauðsyn krefji. 1. júlí er í næstu viku og ég held að það væri nú ekki ofrausn ef virðulegi forseti léti okkur vita um það hvar hann dregur mörkin að því er varðar brýna nauðsyn. Ég býst við að þar undir falli til dæmis málin sem eru í efnahags- og viðskiptanefnd og varða höftin. En ég spyr um önnur þau mál sem verið hafa á listum hér í vinnslu milli stjórnar og stjórnarandstöðu, m.a. frumvarp forsætisráðherra um þjóðfánann.