144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[16:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég vil nota tækifærið og taka undir þá kröfu sem hann setti hér fram. Við ræddum þetta síðast fyrir tæpri viku og þá kom sú krafa fram að hæstv. menntamálaráðherra kæmi hér og gerði grein fyrir framtíðarsýn sinni í málefnum tónlistarskólanna. Ég vil taka undir þá kröfu sem hv. þingmaður setur fram og mælist til þess að forseti láti kanna það hvort hæstv. ráðherra geti komið hingað og verið við umræðuna. Eins og kom fram í ræðu minni um þetta málefni fyrir tæpri viku styð ég málið en tel um leið að það sé mjög örðugt fyrir þingið að afgreiða málið án þess að sú framtíðarsýn liggi fyrir. Það sem mig langar að inna hv. þingmann eftir er skoðun hans á þeirri framtíðarsýn.

Ég fór yfir það í máli mínu að ég hefði lengi haft þá skoðun að eðlilegt væri að ríkið annaðist framhaldsstigið í tónlist eins og hinu almenna skólakerfi, en sú lausn sem hefur verið boðuð í því frumvarpi sem var kynnt á vormánuðum 2013 hefði verið svona millileikur getum við sagt, þ.e. ríkið með lögum skuldbyndi sig til þess að styrkja sveitarfélögin til að reka nám á framhaldsstigi en tæki ekki framhaldsstigið yfir sem slíkt og færi að reka það. Það voru þá fyrst og fremst svona ákveðin hagkvæmnissjónarmið í ljósi þess að framhaldsstigið er dreift um allt land og framhaldsstig er víða í skólum. Það hefði kallað á talsvert miklar breytingar.

Nú heyrum við af því að hæstv. ráðherra boði það að hann hyggist stofna einn framhaldsskóla, eða öllu heldur að ríkið beini stuðningi sínum til eins tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi frá því að við hófum þessa umræðu mótað sér frekari skoðun á því hvaða framtíðarsýn væri æskileg í þessum efnum eða hvort hann telji eðlilegt að við gefum okkur tíma til að ræða hana við hæstv. ráðherra þegar hann mun einhvern tímann mæta hér til að gera grein fyrir henni.