144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á meðan menn eyða tíma sínum hér í að gengisfella alvarlega hluti eins og einelti þá er það að gerast í okkar samfélagi að 198 heilbrigðisstarfsmenn eru búnir að segja upp störfum vegna laga sem sett voru á þá fyrir skömmu, 167 af þeim eru hjúkrunarfræðingar. Er einhver að ræða þetta hér á Alþingi? Nei, það hefur enginn áhuga á því. Við erum búin að bjóða ríkisstjórninni upp á það aftur og aftur að ræða þessi mál við okkur en hún gerir það ekki. Komnir eru langir biðlistar í heilbrigðiskerfinu sem þarf að taka á og forstjóri Landspítalans sagði okkur í gær að það muni kosta verulega fjármuni. Er einhver að tala um það hér? Nei, það er ekkert verið að tala um það hér. Eru menn með einhverjar áætlanir eða að kynna okkur hvernig þeir ætla að bregðast við þessu ástandi? Nei, það er enginn að því. Menn eru ekkert að gera í þessum málum, hafa engan áhuga á því. Við erum búin að bjóða upp á samtal um þetta síðustu þrjá mánuði, hefur einhver svarað því kalli? Það hefur enginn svarað því kalli, hvorki þingmenn stjórnarliðsins né heldur ríkisstjórnin. Þetta er alvarleg staða.

Nú er það þannig að menn eru að hittast í dag, hjúkrunarfræðingar og ríkið, í fyrsta skipti frá því 10. júní. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar stjórnvöld eru það sem við höfum í þessu landi sem eru að keyra heilbrigðiskerfið í svaðið með slíkri framkomu gagnvart starfsfólkinu sem heldur því uppi? Við erum með starfsfólk á heimsmælikvarða sem getur farið hvert sem það vill til starfa. Og hvað gerum við? Við sýnum því vanvirðingu, tölum ekki við það svo vikum og mánuðum skiptir og setjum svo lög á það. Þannig er framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart þessu fólki.

Virðulegi forseti. Ég held að menn ættu að hysja upp um sig og fara að ræða hluti sem skipta máli (Forseti hringir.) og hætta að gera lítið úr þeim sem hafa orðið fyrir einelti með því að kalla það einelti þegar verið er að gagnrýna ráðamenn.