144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp í seinni ræðu mína um þetta mál til að halda nokkrum atriðum til haga. Í fyrsta lagi er það svo að við ræddum sambærilegt mál í fyrra sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra mælti þá fyrir, þ.e. sem varðaði framlengingu á þessu samkomulagi. Þá var það lagt fram fyrir tilskilinn tímafrest og hæstv. ráðherra mælti sjálfur fyrir því en boðaði þá að vonandi yrði lagt fram frumvarp með framtíðarsýn um málefni tónlistarnáms í landinu núna í haust, haustið 2014. Nú erum við komin fram í júní 2015 og hæstv. ráðherra kom í umræðuna í gær, sem var mjög gott og gagnlegt fyrir umræðuna, og sagði að hann boðaði að slíkt frumvarp kæmi fram næsta haust. Ég vil fyrst og fremst ítreka þetta í síðari ræðu minni um það mál sem við ræðum nú. Ég held að við öll sem höfum talað hér höfum lýst yfir stuðningi við málið. Það verður auðvitað að segjast með þeim fyrirvara að við verðum að treysta á að þetta sé í síðasta sinn sem við ræðum mál af þessu tagi og við fáum frumvarp með framtíðarsýn næsta haust.

Ég skal vera síðasta manneskjan til að draga úr því að þessi mál séu flókin og kom ég aðeins inn á það í fyrri ræðu minni. Ég vil þó taka fram að þann 30. apríl 2013 var kynnt frumvarp að nýjum heildarlögum um starfsemi tónlistarskóla sem hafði þá verið í vinnslu í alllangan tíma. Þar var lagt til að sett yrðu ný heildarlög um starfsemi tónlistarskóla og samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Rekstur tónlistarskóla hefur verið valkvætt verkefni sveitarfélaga og á ábyrgð sveitarfélaganna og ákveðið var að leggja ekki til breytingu á því fyrirkomulagi. Hins vegar var lagt til að festa í sessi það fyrirkomulag sem hefur verið inni í þessu samkomulagi sem og að kveða með talsvert skýrari hætti á um starfsemi tónlistarskóla en gert er í gildandi lögum, sem eru auðvitað komin allnokkuð til ára sinna og taka ekki mið af þeirri þróun sem hefur orðið í almenna skólakerfinu. Enn fremur var gert ráð fyrir tilteknum lágmarkskröfum sem tónlistarskólar þyrftu að uppfylla og lagt til að þetta samkomulag yrði lögfest. Þetta hefur legið fyrir, annars vegar hvert hlutverk sveitarfélaga er í þessu, tillögur, og hvert hlutverk sveitarfélaga eigi að vera, hvert hlutverk ríkisins eigi að vera, hvernig eigi að standa að stofnun og rekstri tónlistarskóla og skipuleggja tónlistarnám. Þótt ég taki fram að mér auðnaðist ekki að leggja slíkt frumvarp fram á þinginu, ég kynnti það í raun og veru undir lok þingvetrarins 2013, veldur það mér vonbrigðum að þessi vinna hafi þá ekki haldið áfram.

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan drög mín voru kynnt, sem voru unnin í ágætu samstarfi allra hagsmunaaðila, og það liggur í raun fyrir út frá svörum hæstv. ráðherra hér í gær að slíkt frumvarp kemur í fyrsta lagi fram haustið 2015, en það var líka boðað haustið 2014. Við fengum aðeins að heyra þær hugmyndir sem verið er að vinna með hvað varðar nýtt frumvarp. Það liggur fyrir að þar eru boðaðar ákveðnar breytingar, sérstaklega hvað varðar hugmyndir um að sameina tiltekna sjálfstætt starfandi tónlistarskóla en halda þó um leið áfram að styrkja framhaldsnám í öðrum skólum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þessar hugmyndir komi hér fram og helst sem fyrst næsta haust þannig að þingið fái tíma til að kafa ofan í þetta mál, því að, herra forseti, undirstaðan fyrir tónlistarlífið í landinu er gott og öflugt tónlistarnám.

Það sem við finnum sem fylgjumst með því starfi er að sú óvissa sem hefur staðið um rekstur tónlistarskólanna undanfarin ár hefur lamandi neikvæð áhrif á starf skólanna. Ég hef ekki heyrt betur en að við sem höfum tjáð okkur í þessari umræðu úr ólíkum flokkum, okkur sé öllum mjög annt um það að efla starfsemi þessara skóla. Hér hefur komið fram skilningur á mikilvægi þeirra fyrir tónlistarlífið í landinu og við getum ekki látið það um okkur spyrjast að þessi óvissa vari áfram. Þar er ábyrgð hæstv. ráðherra rík. Ég segi það hér í lok minnar síðari ræðu í málinu að það er mjög (Forseti hringir.) mikilvægt að við fáum fram þessa framtíðarsýn strax eftir þær tíu vikur (Forseti hringir.) sem eiga eftir að líða þangað til þing kemur saman aftur, herra forseti, svo að við getum farið að vinna að þessum málum og eyða óvissunni.