144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er búin að vera áhugaverð umræða í dag um mál er varðar atvinnuuppbyggingu á Bakka, það er óhætt að segja það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er fjarstaddur, hann er í erindagjörðum þingsins með Norðurlandaráði og hefur því ekki tök á því að koma hér og svara fyrir sig eða taka þátt í þessari umræðu.

Það má alveg deila um hvar verkefnið á að vera vistað, fólk getur haft á því ýmsar skoðanir, en þessi ríkisstjórn hefur haft tækifæri í tvö ár til þess að breyta því en hefur kosið að gera það ekki einhverra hluta vegna. Það er auðvitað bara hennar ákvörðun, en við getum haft ýmsar skoðanir á því hvort það hefði átt að vistast þar eða ekki.

Það lá alla tíð ljóst fyrir þegar þetta verkefni fór af stað að þetta var nýfjárfesting af hálfu ríkisins á sínum tíma. Þó að gagnrýna megi hvernig staðið var að kostnaðarmati á því breytir það því ekki að þáverandi yfirvöld fóru eftir því sem kom annars vegar fram hjá Siglingastofnun og hins vegar hjá Vegagerðinni, þannig að það sé sagt. Það er líka vert að vekja athygli á því að það kemur fram í minnisblaði sem fjárlaganefnd fékk hjá Vegagerðinni og mig langar að vitna í, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Hins vegar verður að leggja áherslu á að Vegagerðin vissi frá upphafi að þetta mat á kostnaði var háð mikilli óvissu og var það tíundað í umsögn stofnunarinnar um frumvarp til laga nr. 41/2013, um uppbyggingu innviða á Bakka, sem dagsett er 11. mars 2013. Það á því að hafa verið ljóst bæði hjá Alþingi og því ráðuneyti sem stóð að baki frumvarpinu. Í umsögninni segir:

„Þá skal bent á að framangreind kostnaðaráætlun, 1,8 milljarður, byggir á frumdrögum af hönnun mannvirkja, miðað við fyrirliggjandi rannsóknir og að tryggja verður fjármagn til framkvæmdanna allt til loka, jafnvel þótt kostnaður yrði meiri en reiknað er með í núverandi áætlun.““

Í ljósi þess sem hv. þingmaður, sem var á undan mér í ræðustól, sagði hefði það kannski verið ágætt að vera búinn að lesa þetta. Af því að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar kom inn á að það væri vani að ákveðin hámarksupphæð væri sett inn í svona frumvörp þá er það ekki rétt. Hins vegar er rétt að lánveitingar eru færðar inn í fjárlög. Það var ekki tíundað í þessu tiltekna frumvarpi sem var samþykkt, sem ég tel reyndar eftir á að hafi verið mistök. Hefðum við verið með þetta í 5. gr. heimild værum við að afgreiða það ár frá ári. Þá værum við ekki að deila um það og þyrftum ekki að laga frumvarpið eins og hér er verið að gera. Það hefði því vissulega verið heppilega að gera það með þeim hætti.

Þetta eru jú áætlanir og það er alltaf hægt að gera betur, ég held að við viljum öll gera það. Á sínum tíma þegar þetta frumvarp var samþykkt voru ákveðin tímamót og ljóst að gefa þyrfti ákveðnar yfirlýsingar til þess að draga að aðila til uppbyggingar á þessu svæði. Það getur verið að það hefði mátt undirbúa það betur, en tíminn getur líka skipt þarna máli, en auðvitað eru þetta miklar fjárhæðir. Það lá líka alltaf fyrir að ívilnanir yrðu meiri af því að þetta er auðvitað langt frá aðalsamgönguæðum. Það var því ljóst að það mundi þurfa meira til en almennt hefur verið gert. Þá voru sett sérlög um hvert og eitt stóriðjuverkefni og oft og tíðum gengið lengra, ívilnanir stóðu kannski í áratugi.

Ég fagna því í sjálfu sér að þetta verkefni er loksins komið á koppinn og ég held að við verðum að hugsa til þess þrátt fyrir að við þurfum að taka fjármögnunina hverju sinni í það verkefni sem við erum að fást við — og eitt af því sem við höfum rætt mikið í fjárlaganefnd er að bæta áætlanagerð. Við erum öll sammála um að við viljum reyna það. En það á alveg eins við um það sem ríkisstjórnin var að gera á dögunum þegar hún ákvað að setja fjármuni utan samgönguáætlunar, utan alls hefðbundins ferlis, í þau verkefni sem hún valdi. Það eru heldur ekki góð vinnubrögð. Það afsakar ekki að eitthvað annað sé vont eða gott, en við þurfum að vanda okkur, við þurfum öll að gera það, ekki bara núverandi ríkisstjórn eða fyrrverandi, heldur við öll sem erum hér á þingi. Ég held því að svona almennt séð eigi fólk að fara hægt og tala varlega í því verkefni öllu saman sem við erum hér að fást við og hugsa um hvað við erum að gera annað á sama tíma.

Það er auðvitað margt sem kemur þarna inn sem verður til þess að þetta verkefni reynist miklu dýrara en Vegagerðin og Siglingastofnun höfðu gert ráð fyrir. Eins og hér hefur verið rakið er kostnaðarviðmiðið þekkt hjá Vegagerðinni, þ.e. þessi hefðbundnu jarðgöng en ekki jarðskjálftastyrkt, eins og síðar kemur í ljós að þarf að vera, og að þau þurfa að þola miklu þyngri umferð en önnur göng hér á landi. Ég bý í sveitarfélagi með fern jarðgöng og meira að segja á jarðskjálftasvæði. Þar var það ekki tekið með í reikninginn á sínum tíma þegar göngin voru hönnuð og framkvæmdir við þau fóru af stað. En við munum eftir Dalvíkurskjálftanum og þetta er svæði á hreyfingu. Það var ekki gert í tengslum við göngin fyrir norðan og það var ef til vill það sem Vegagerðin hafði til viðmiðunar. Þarna er stærsti kostnaðaraukinn í þessu dæmi. Auk þess þurfti að færa til á svæðinu, eins og segir hjá Vegagerðinni þurfti forskeringin að stækka mikið og þurfti að færa veginn út í sjó. Brimvörnin er því orðið mun dýrari.

Vegagerðin taldi reyndar að gólfið í göngunum væri nægjanlega styrkt þegar kæmi að burðarþoli, en svo reyndist ekki vera. Að fenginni reynslu af jarðgangagerð undanfarinna ára er reiknað með mun hærri ófyrirséðum kostnaði en gert hefur verið fram til þessa, og ég held að það sé skynsamlegt að gera það. Jarðgangakostnaður almennt hefur farið vaxandi á landinu. Það er margt í þessu sem hefur orðið hefur til þess að kostnaðurinn við verkefnið hefur hækkað mikið. Ef þetta verkefni hefði verið sett á fjárlög hverju sinni ár hvert, eins og verið er að gera, værum við ekki endilega að ræða þessa viðbót. Ég bið fólk að hafa það í huga að hægt er að horfa á þetta frá mörgum hliðum. Ég tek það fram að það breytir því ekki að við eigum að vanda okkur í áætlanagerð í öllum þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur, það eru engir smáaurar sem hér er um að ræða.

Burt séð frá þessu verkefni þá kostar mikla fjármuni að hafa byggð í stóru landi, hvort sem það eru svona framkvæmdir eða einhverjar aðrar. Við sem samfélag berum af því mikinn kostnað en ég held að það sé nokkuð sem við viljum flest standa að, þ.e. að byggð geti haldist í þessum dreifðari byggðum.

Það er vert að rifja upp í þessari umræðu að það má nánast telja Þingeyjarsýslurnar kalt svæði, þar er hækkaður meðalaldur og fólksfækkun víða á svæðinu, þó að sumir staðir séu þar undanskildir eins og gjarnan er á stóru landsvæði. Fram kom í greinargerð frá Byggðastofnun að þessi uppbygging er mikilvæg. Það er mikilvægt að hafa náð stórbyggingunni sem áætluð var í upphafi niður í þetta kísilver, og svo verðum við auðvitað að horfa á afleiðurnar. Gert er ráð fyrir að þetta verði ekki eina fyrirtækið, heldur að það verði tækifæri fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki til að nýta sér þá fjárfestingu sem þarna er verið að fara í. Auðvitað megum við ekki gleyma því að ríki og sveitarfélög munu njóta góðs af þeim umsvifum sem verða í þessu samhengi, bæði á uppbyggingartímanum og síðar í formi tekna, tekjuskatts, útsvars og óbeinna skatta af þeirri starfsemi sem þarna mun verða. Það er enginn afsláttur veittur af því.

Við getum alltaf lært og gert betur, en varðandi það að þetta verkefni sé algjör undantekning frá öllu varðandi ákvarðanatökur þá minni ég enn og aftur á þá ákvörðun sem tekin var hér á dögunum. Þá þótti ekki tiltökumál að fara fram hjá öllu sem heitir samgönguáætlun eða þeim aðilum sem fjalla eiga um samgöngur, mannvirki, vegagerð eða eitthvað slíkt. Það er því betra að tala varlega. Ég mun að sjálfsögðu styðja þetta verkefni og það hefur ekkert að gera með það að það er í mínu kjördæmi, ekki frekar en að ég hef stutt önnur mál sem eiga heima í öðrum kjördæmum.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Gjarnan er talað um ríg á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar, og ég tel að sérstaklega þingmenn á höfuðborgarsvæðinu hafi gert það ítrekað. Ég hef ekki talað um kjördæmapot þegar talað er um Sundabraut eða eitthvað annað. Ég frábið mér þá orðræðu að öll uppbygging á landsbyggðinni sé fyrst og fremst kjördæmapot. Það er ekki kjördæmapot að gera Norðfjarðargöng. Það er ekki kjördæmapot að gera Vaðlaheiðargöng eða önnur verkefni sem farið er í á landsbyggðinni, það er ekki kjördæmapot. Það er tilraun til þess að viðhalda byggð í landinu. Ég held að það sé nokkuð sem við eigum að standa saman að því að ég veit ekki hvar höfuðborgarsvæðið væri án landsbyggðarinnar.