144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þá tel ég það einmitt hafa verið mistök að setja töluna inn í frumvarpið og ég tel það bara yfirleitt. Það er ekki vegna þess að þá séum við almennt með opinn tékka í verkefni því að það er heldur ekki gott eða skynsamlegt að leggja málin upp með þeim hætti. Við tökum ákvarðanir í gegnum fjárlög ár hvert. Sama hvort verkefni eru vistuð undir 5. gr., í heimildum í 6. gr. eða í beinum fjárlagaliðum þá er auðvitað skynsamlegt að verðmerkja þau í fjárlögum og reyna að gera áætlanir, eins og gert er í samgönguáætlunum o.fl., í staðinn fyrir að eyrnamerkja hvert og eitt frumvarp, sérstaklega þegar um er að ræða stórar framkvæmdir.

Ég hef spurt mig að því í þessari umræðu hvort sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu gert þetta einhvern veginn öðruvísi en við gerðum. Það voru ráðgerðar miklu stærri framkvæmdir á þessum tíma og í mörg ár þar á undan þannig að menn vildu hafa hlutina mun stærri og umfangsmeiri en lendingin varð. (Gripið fram í: … annars staðar á landinu.) Í ljósi þeirrar gagnrýni sem kemur hér fram á þessa aðferðafræði þá spyr ég mig hvort þeir sem nú sitja í meiri hluta hefðu gert þetta með einhverjum öðrum hætti. Það verður áhugavert að heyra í þingmönnum þeirra flokka, sem eiga eftir að tala hér, hvernig þeir hefðu gert þetta öðruvísi.