144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög slæmt þegar áætlanir standast ekki. Ef við getum tryggt það með lagabreytingum að betur verði gengið frá hnútunum þá held ég að sjálfsagt sé að gera það. Ég veit ekki hvort það sé möguleiki að þessi mistök hafi átt sér stað vegna þess að þessir flokkar og þá sérstaklega Vinstri grænir, sem þá héldu um kyndilinn, eru óvanir því að standa í svona verkefnum. Það væri kannski vissara fyrir þann flokk, ef hann lendir í sambærilegri stöðu í framtíðinni, að átta sig á því að aðrir eru betur færir til þess að ganga frá svona málum en hann.

Fordæmin eru alla vega þannig að sú uppbygging sem hefur átt sér stað síðan 1960, þegar orkufrekur iðnaður kom fyrst inn í landið, á sér mjög farsæla sögu. Mér er minnisstætt og rifja það gjarnan upp hvernig Bjarni Benediktsson heitinn, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði um þetta í ræðu á sínum tíma þegar hann orðaði það svo að nú væri orðið stóriðja komið í tungumálið og var misjafnt hvað mörgum sýndist um það orð, sumir fögnuðu því en aðrir andmæltu því mikið. Þá hófst baráttan sem hefur haft gríðarlega mikil áhrif á lífskjör þjóðarinnar og skotið styrkum stoðum undir samfélagið ásamt öðrum hefðbundnum atvinnugreinum, eins og sjávarútvegi, og riðið í raun baggamuninn á því að þessi þjóð hefur styrkt grunnstoðir sínar. Baráttan hefur staðið og hún stendur enn. Það eru nánast sömu öflin sem eru í þessari baráttu enn þá. Tvískinnungurinn í málinu er að þetta mál skuli vera komið hingað inn fyrir frumkvæði Vinstri grænna og (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar sem berjast nú á móti okkur gegn því að geta staðið fyrir sambærilegum verkefnum í öðrum landsfjórðungum.