144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikil er viðkvæmni hv. þingmanns. Ég fór bara efnislega yfir það af hverju ég taldi að þingflokkur Bjartrar framtíðar, þó með þeim undantekningum sem ég nefndi sérstaklega, hefði ekki verið sjálfum sér samkvæmur og ég stend við þau orð hvar og hvenær sem er og ég fór efnislega yfir það, eins málefnalega og hægt er. Ef hv. þingmaður hefur athugasemdir við eitthvað sem ég sagði í því efni þá hvet ég hv. þingmann til að koma með málefnalegt innlegg hvað það varðar en ég var að benda á tvískinnunginn hjá Bjartri framtíð, svo það sé algerlega skýrt.

Varðandi það þegar maður greiðir atkvæði í málum þá er maður sjaldnast algerlega sammála. Jafnvel þótt maður sé vel inni í málum, eins mikið og hægt er, hef ég sjaldan verið algerlega sammála einhverju máli. Alla jafna eru þetta málamiðlanir og maður þarf að meta hvort maður telji hagsmunina meiri eða minni, hvort það sé þess virði að greiða atkvæði með málinu þótt maður sé ekki fullkomlega sáttur við það.

Hvað varðar þetta mál og hvort það sé kjördæmapot, ég veit ekki hvort ég notaði það orð sérstaklega, en gott og vel, þá held ég að í báðum þessum málum, þ.e. Bakka og Vaðlaheiðarganga, hafi ekki verið unnið faglega og eðlilega að undirbúningi. Þess vegna erum við í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Ef það hefði verið gert, þá hefðum við ekki þurft að koma fram með þetta frumvarp. Síðan hafa aðrir, að minnsta kosti í þessari umræðu, farið betur yfir tengslin við kjördæmið. Það má vel vera að ég hafi gert það á einhverjum öðrum tímapunkti, reyndar held ég að ég hafi farið í andsvar við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sérstaklega þegar ég spurði út í þetta þegar hann var að ræða mál sem sneri að stóriðjunni. Mér finnst vera mjög mikill tvískinnungur hjá VG og Samfylkingunni þegar kemur að stóriðjunni. Þó verður að segjast að eftir umræðuna hér hafa forustumenn Samfylkingarinnar komið skýrt fram með það að flokkurinn sé mikill stóriðjuflokkur þannig að það er nýr vinkill í umræðunni.