144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[10:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vildi bara gera hér grein fyrir þeim fyrirvara sem við minnihlutafólk erum með í allsherjar- og menntamálanefnd og lýtur að því, eins og hér segir, að réttara væri að nota orðalagið „Barnahúsi eða öðru sérútbúnu húsnæði“ og veita þannig Barnahúsi lagagrundvöll til að styrkja starfsemi þess. Það vantar tilfinnanlega, þegar verið er að yfirheyra börn eftir einhvers konar misnotkun, betri aðstöðu víða um land og því er beint til hér til innanríkisráðuneytisins að skoða þau mál, hvort hægt sé að bæta úr. Það er líka mikið álag þegar flytja þarf ung börn suður til Reykjavíkur í sérútbúið Barnahús og því væri æskilegt að koma betur útbúnu sérhúsnæði úti um land.

Við viljum reyna að styrkja stoðir Barnahúss með því að nýta það sem hér er skrifað með stórum staf en ekki bara að hægt verði að yfirheyra börn hvar sem er.