144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, og er frestun á gildistöku. Hér hefur hv. þm. Róbert Marshall farið ágætlega yfir sögu málsins enda er hann sá okkar hér sem þekkir málið best af sjónarhóli þess sem hefur setið í umhverfisnefndinni allt frá því að málið var til umfjöllunar á síðasta kjörtímabili og síðan á því kjörtímabili sem nú er yfirstandandi.

Sú sem hér stendur fékk það verkefni í hendur þegar ríkisstjórnin tók við vorið 2009 ásamt öðrum verkefnum sem var í umhverfismálakafla þeirrar ríkisstjórnar sem var býsna langur og uppfullur af metnaðarfullum verkefnum að leiða heildarendurskoðun náttúruverndarlaga. Þetta var gríðarlega stórt verkefni eins og hér hefur komið fram. Þarna var um að ræða grundvallarlagabálk sem þurfti grundvallarendurskoðunar við, var kominn á tíma ef svo má að orði komast. Náttúruverndarlög höfðu fyrst verið sett á Íslandi af þáverandi hæstv. ráðherra Eysteinn Jónsson sem hafði mælt fyrir málinu þannig að maður hefði vænst þess að Framsóknarflokkurinn hefði metnað í þá veru að vera áfram leiðandi í löggjöf að því er varðar náttúruverndarmál og grundvöll þeirra. Þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kom hér fram og mælti fyrir afar stuttu frumvarpi sem snerist ekki um að komið yrði með algerlega nýtt mál, það var ekki um að komið yrði með nýtt frumvarp í fyllingu tímans til náttúruverndarlaga. Það var frumvarp um að fella lögin 60/2013 einfaldlega úr gildi. Það var ekki um neitt annað en að fella þau lög úr gildi. Síðan tókst með samtölum og samkomulagi að forða því slysi og við erum enn að vinna á grundvelli þess samkomulags hér því þá tókst um það sátt að fresta gildistöku frumvarpsins enn eða laganna enn frá 2013 til 1. júlí 2015, sem er einmitt ekki á morgun heldur hinn. Þar erum við stödd.

Ráðherra náttúruverndarmála hefur farið þess á leit við umhverfisnefnd og síðan í samkomulagi um þinglok að gildistímanum sé enn frestað. Þá verðum við að hafa í huga að við erum komin fram yfir mitt kjörtímabil og enn hefur ekki dregið til neinna efnislegra tíðinda að því er varðar ný náttúruverndarlög undir forustu Framsóknarflokksins í ríkisstjórn sem ætlar sér að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum á heimsvísu samkvæmt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá er markið sett svo hátt að ríkisstjórnin á að vera eftirtektarverð um veröld víða fyrir framsækni og metnað í umhverfismálum.

Hér fyrr á dögum var umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, Jónína Bjartmarz, og hún lagði fram frumvarp til laga sem náðist að vísu aldrei að mæla fyrir en var gagnmerkt frumvarp og snerist í raun og veru um það að leiða í lög allar meginreglur umhverfisréttarins, að gera það með einni samfelldri löggjöf í stað þess að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. varúðarreglan sé felld inn í lagatextann, heldur var nálgunin af þessu tagi og var þá í góðu samræmi við metnað Framsóknarflokksins á stundum í þessum málaflokki. Það náðist því miður ekki að mæla fyrir málinu eða fullnusta það á sínum tíma án þess að ég þekki beinlínis pólitískar eða efnislegar ástæður þess að það náðist ekki fram.

Stundum finnst manni kjörtímabil langt og sérstaklega þegar maður er í stjórnarandstöðu. En þegar maður er í ríkisstjórn þá er það stundum heldur stutt og jafnvel of stutt og þegar maður fær svona metnaðarfullt verkefni frá þeim sem fara með það viðfangsefni að setja saman samstarfsyfirlýsingu að standa fyrir heildarendurskoðun náttúruverndarlaga og setur slíka endurskoðun í gang nokkrum vikum eftir að ríkisstjórnin er sett í gang og er síðan með það verkefni á lokavetri kjörtímabils að freista þess að ná að gera þau að lögum, þá áttar maður sig á því hversu þröngur stakkur manni er í raun og veru skorinn með fjórum árum Það getur verið ótrúlega knappur tími þegar um er að ræða heildarendurskoðun af þessu tagi.

Við þetta verkefni var kynnt til sögunnar nýtt verklag sem ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að viðhafa í fleiri stórum málaflokkum, þ.e. það verklag að setja fyrst saman starfshóp sem hefur það verkefni að kortleggja lagaumhverfið í heild, ekki sem sagt einungis að skoða lögin sem fyrir liggja heldur skoða lagaumhverfið allt og það sem lögin snerta á. Þetta var kallað hvítbók, hvítbók um náttúruvernd á Íslandi og er alveg í samræmi við þá undirbyggingu löggjafar sem viðhöfð er annars staðar á Norðurlöndunum og á þá sérstaklega við í Noregi og Svíþjóð eftir því sem mér skilst. Þar með er hvítbókin í raun og veru nánast fræðirit og efnislegur grundvöllur til að byggja löggjöfina á. Það getur verið óráð að byggja endurskoðun löggjafar alltaf á fyrirliggjandi lögum vegna þess að þá getur manni yfirsést ýmsar breytingar sem tíminn leiðir af sér, tíðarandinn og ný þekking. Þessi aðferð sem þekkt er í löndunum í kringum okkur er til þess fallin að ná fram efnislega sterkari og málefnalegri löggjöf.

Sá texti sem hvítbók um náttúruvernd felur í sér er til að mynda núna notaður í háskólakennslu í nokkrum háskólum á Íslandi vegna þess hversu sterkur grunnur þetta er undir einhvers konar stöðumat á lagaumhverfi og regluverki náttúruverndar á Íslandi á þeim tíma sem hann er settur fram. Á þessum grunni var síðan frumvarpið byggt eftir að hvítbókin sem slík hafði verið í töluverðri umræðu, hafði verið umfjöllunarefni á umhverfisþingi og hafði verið lögð fram til umsagnar, allt í því skyni að ná um það víðri samfélagslegri umræðu. Nú er það svo í þessu landi okkar, á landinu bláa, hafa allir skoðun á náttúruverndarlögum og það er kannski ekki óeðlilegt, kemur til af því að við lifum á landsins gæðum og njótum þess öll að búa við einstakt náttúrufar, bæði að því er varðar gæftir en ekki síður að því er varðar tilfinningalega og andlega næringu í dagsins önn. Þess vegna kemur náttúruvernd okkur öllum við og þess vegna snerta náttúruverndarlög okkar öll og þess vegna er alltaf gustur um það þegar verið er að setja skorður, bæði þegar náttúruverndinni eru settar skorður en ekki síður þegar okkur sjálfum eru settar skorður frammi fyrir náttúrunni og það er viðfangsefni náttúruverndarlaga. Eins og orðin fela í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, snúast náttúruverndarlög einmitt um að vernda náttúruna. Og vernda hana fyrir hverju? Vernda náttúruna fyrir þeim athöfnum og aðgerðum mannsins sem kunna að ganga á hagsmuni hennar. Þannig erum við kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga sem eru kjörnir af þjóðinni að freista þess í lagabálki sem þessum að setja fram varnir fyrir hönd náttúrunnar sem hún getur ekki sett fram sjálf og það er býsna stórt og mikilvægt verkefni. Það eru alltaf háværir aðilar, það eru alltaf háværar raddir sem halda hinu gagnstæða fram, þ.e. að varnirnar séu of stífar, að réttur virkjunaraðila, ferðaþjónustuaðila, bænda og einhverra annarra eigi að vera meiri frammi fyrir náttúrunni, en það er verkefni náttúruverndarlaga að draga þessa línu í sandinn. Það er býsna mikil áskorun í því fólgin þegar viðfangsefnið er líka að ná fram einhvers konar samfélagslegri sátt um það sem við erum með á borðinu.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þessi sátt væri í augsýn og það væri mikilvægasta viðfangsefni ráðuneytisins núna og ríkisstjórnarinnar að því er varðar náttúruverndina að ná meiri sátt um málið og þá verð ég óróleg vegna þess að í lögunum frá 2013 vorum við með býsna sterka varúðarreglu. Við vorum með hana svo sterka að hún hefur eitthvert gildi. Hún hefur það gildi að náttúran njóti vafans. Á sama hátt vorum við með sterkt ákvæði um sérstaka vernd sem væri víðtæk, þ.e. að náttúrufyrirbæri nytu verndar óháð friðlýsingu. Þá erum við að tala um náttúrufyrirbæri eins og hraun og fossa og gervigíga o.s.frv., að þau njóti einfaldlega verndar vegna sérstöðu sinnar, ekki vegna þess að þau séu friðlýst eða ekki friðlýst heldur vegna þess að þau eru náttúrufyrirbæri. Það er ákvæði um sérstaka vernd. Þessir þættir voru styrktir umtalsvert í lögunum frá 2013 og eru töluvert sterkari en í lögunum frá 1999 og til þess var leikurinn gerður. Það var markmiðið. Þess vegna hef ég áhyggjur þegar menn segjast vilja ná meiri sátt um þessi atriði. Þá spyr ég: Sátt við hvaða sjónarmið?

Samningafundurinn þar sem fulltrúar umhverfisráðuneytisins, umhverfisráðherra sjálfur, umhverfisnefndin eða einhver annar situr á fundi með gervigígum er ekki til. Við eigum engan fund með fossum. Við eigum enga fundi með hraunum. Við eigum kannski fundi með Samtökum atvinnulífsins, með Samtökum iðnaðarins eða einhverjum þeim öðrum sem hafa af því hagsmuni að þeim séu ekki reistar skorður í umgengni sinni við náttúruna. Þess vegna er áskorunin til okkar sú að við freistum þess að fylla sæti náttúrunnar sjálf við samningaborðið. Það er verkefni okkar sem sitjum í umhverfis- og samgöngunefnd að gera og það er hlutverk ráðherrans að gæta að hagsmunum náttúruverndar sem náttúruverndarráðherra. Það leiðir af sjálfu sér.

Eftir að hafa séð drög ráðherra á vef ráðuneytisins í mars og eftir að hafa fengið fréttir af þeim breytingum sem eru í farvatninu á því frumvarpi er ljóst að verið er að draga úr varúðarreglunni frá lögunum nr. 60/2013, og það er verið að veikja sérstöku verndina. Það er hin efnislega staða sem uppi er.

Ég vil taka undir þá yfirferð sem hér kom fram hjá hv. þingmanni Róbert Marshall um framvinduna og um það traust sem var milli nefndarinnar og ráðuneytisins að því er varðar samráðið. Það urðu mér vonbrigði, en hann er í sjálfu sér betur til þess fallinn að fara yfir þau mál þar sem hann var aðili að samkomulaginu sem fulltrúi í nefndinni á sínum tíma og sá síðan hvernig þeirri framkvæmd vatt fram. Ég vænti þess að við komum til með að eiga í góðu samstarfi við ráðuneytið með framvinduna og vænti þess auðvitað að við sjáum fyrr en síðar sterk náttúruverndarlög.