144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður byrjaði þessa ræðu sína á allnokkrum stríðleika en hann mildaðist mjög undir lokin. Ég geri mér góða von um að það sé að fæðast mikill sáttarhugur og vilji í þessu máli.

Hv. þingmaður getur ekki komið hingað og ásakað hv. þm. Andrés Inga Jónsson fyrir einhverjar samsæriskenningar þegar allt sem hann segir í ræðu sinni bendir til þess að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hafi haft rétt fyrir sér. Það verður að segjast eins og er að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fann því allt til foráttu að möguleiki væri á því að ná sátt og lyktum máls þannig að frumvarpið gæti tekið gildi 15. nóvember.

Ég hef líka nokkra þingreynslu, af því að hv. þingmaður er að tala um sína eigin, og ég fæ ekki betur séð en að þetta mál, eins og það er nú, hafi verið vel unnið undir forustu hv. þingmanns. Menn þekkja vandamálin, þekkja hvar ágreiningurinn liggur. Tveir mánuðir ættu að duga og meira en það til að ná niðurstöðu (Forseti hringir.) í málið. Að lokum hlýtur að koma að því, ef það liggur fyrir ágreiningur, (Forseti hringir.) að menn haldi ræður og síðan greiðum við atkvæði. Þetta er mál sem margir bera fyrir brjósti. (Forseti hringir.) Það þarf ekki að undra þó að haldnar séu ræður um málið.