144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

framkvæmd samnings um klasasprengjur.

637. mál
[17:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því fyrir hönd okkar vinstri grænna að þetta frumvarp fái nú afgreiðslu á Alþingi. Athygli mín var vakin á því að orðinn var nokkur dráttur á því að Ísland hefði fullgilt þennan samning. Í hönd fer undirbúningsráðstefna eða fyrsta endurskoðun í Istanbúl í haust, ef ég man rétt, til að fylgja samningnum eftir og áhugasamir aðilar og samtök erlendis sem fylgjast með framgangi málsins og reyna að þrýsta á um að sem flest ríki fullgildi samninginn og/eða gerist aðilar að honum. Þau tóku eftir því að þrátt fyrir að Ísland hafi verið einn af undirritunaraðilunum í byrjun í desember 2008 hefði það ekki enn lokið því verki að fullgilda hann.

Ég lagði því fram fyrirspurn á dögunum um nákvæmlega þetta mál og svo vel vildi til að svarið kom fáeinum dögum seinna í formi þess frumvarps sem hér er nú verið að ræða. Ég held að ástæðulaust sé að hafa um þetta fleiri orð en ég fagna því að við náum því þá að klára þetta fyrir vorið þannig að Ísland getur sótt þessa ráðstefnu með fullri reisn í haust.