144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma áttu sér stað mjög góðar umræður hér í þingsal um ríkisfjármálaáætlun og þá kom margt fram. Það á við í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að betur sjá augu en auga. Við fengum hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson á fund okkar eftir umræðuna og ég þakka honum fyrir að koma á fundinn og skýra sín sjónarmið.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Maður bjóst við að ríkisfjármálaáætlun mundi taka einhverjum breytingum í ljósi þess að við vitum að sumt af því sem þar stendur mun í rauninni ekki halda. Mér finnst þessi áætlun of loðin, of margir óvissuþættir og of margir óreglulegir liðir. Það hefur verið talað um að þetta sé lifandi plagg. Það er líka talað þannig um fjárlögin. Það er allt í lagi að það sé líf í svona plaggi, en þetta er svo sprelllifandi að mér þykir eiginlega nóg um. Ef við ætlum að vera með einhverja áætlun til lengri tíma þá verðum við að reyna að festa allt niður sem við getum. Auðvitað erum við meðvituð um það að hlutirnir geta breyst, en ef við ætlum að ganga út frá því að allt sé óvíst og enginn fyrirsjáanleiki í neinu þá getum við í rauninni alveg sleppt því að vera með svona áætlanir, þá verða þær svolítið marklausar.

Ég geri mér grein fyrir að þetta er fyrsta tilraun til að gera ríkisfjármálaáætlun. Ráðherra viðurkenndi það. Væntanlega verður þetta betur úr garði gert næst. Það kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans að tillagan hafi ekki verið send til umsagnar en það hefði getað verið til bóta. Ég held að það sé alveg rétt.

Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem varð samt hér í þingsal. Það skiptir verulega miklu máli hversu margir þingmenn tóku þátt í umræðunni og í rauninni tóku eftir alls konar annmörkum sem ég hélt að meiri hlutinn og ráðherra mundu bæta úr, en svo varð ekki.

Ég vona að framsögumaður framhaldsnefndarálits komi síðan í þingsal og geri grein fyrir áliti sínu. Ég mundi þá vilja fara í andsvör við hann.

Annars tek ég undir þær athugasemdir sem hafa komið hér fram hjá flutningsmanni framhaldsnefndarálits minni hlutans. Við höfum unnið þetta vel saman og í rauninni er ekki meira um það að segja á þessu stigi.