144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyni að svara spurningu sem beint var til mín í fyrra andsvari og reyni líka að koma örstutt inn á annað. Ég nefndi það í áliti mínu að í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sýnist sitt hverjum. Við getum örugglega deilt um þær leiðir sem ákveðið er að fara og sýnist sitt hverjum um það eins og gengur. Mín skoðun er sú að þetta sé ágætisnálgun. Ég er kannski ekki alveg sammála hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur en hún hefur áhyggjur af því að það séu litlar sem engar kæruleiðir. Ég bendi á að dómstólaleiðin er ávallt fær og hægt er að kæra niðurstöður til dómstóla, eins og ég þekki stjórnsýsluréttinn.

Varðandi þá sem voru jákvæðir var Djúpavogshreppur til að mynda afar jákvæður. Þar sitja kollegar hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur við stjórnvölinn ásamt öðru góðu fólki. Ef ég man rétt þá var Hafnarfjarðarbær mjög jákvæður og fannst þetta ágætt, að minnsta kosti svona í upphafi þangað til þeir fengu símtal. (Gripið fram í.) Þetta var athyglisvert.

Það sem skiptir máli er að við beitum hér 78. gr. stjórnarskrárinnar. Við nýtum okkur heimild til þess að ákveða hvað fellur undir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það segir okkur að sá réttur, eins og hann hefur nú verið kallaður, er eins langt frá því að vera heilagur og hugsast getur. Hér er komið gott frumvarp. Það er búið að sníða af því marga agnúa. Ég er (Forseti hringir.) mjög glaður að heyra að þó að minni hlutinn sé kannski ekki sammála (Forseti hringir.) er hann að minnsta kosti sammála markmiðum frumvarpsins.