144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur hlustað á umræðuna þá höfum við verið að ræða stóru myndina. Mér finnst afar mikilvægt að stjórnarþingmenn átti sig á því þegar þeir greiða atkvæði um þessa ríkisfjármálaáætlun að ein af forsendum fyrir stóru myndinni hvað útgjöldin varðar er að ef kaupmáttaraukning ríkisstarfsmanna fer yfir 2% á ári, á meðan á áætluninni stendur, verður skorið niður á móti þeim kostnaði. Það eru forsendur stefnunnar í útgjaldamálum.

Annað sem mér finnst vera mjög alvarlegt er að gert er ráð fyrir að þeir sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga fái 1% kaupmáttaraukningu, mun minni kaupmáttaraukningu en hefur verið samið um. Lægstu launin sem var samið um núna í kjarasamningum, sem búið er að gera, gera ráð fyrir 5% kaupmáttaraukningu á næstu fjórum árum.