144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna sérstaklega niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í máli Snædísar Ránar Hjartardóttur í gær gegn íslenska ríkinu eða Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hún höfðaði mál vegna þess að miðstöðin synjaði henni um endurgjaldslausa túlkaþjónustu, vegna þess að túlkasjóðurinn var tómur eins og hér hefur ítrekað komið fram, en hefur nú verið bættur upp tímabundið, þ.e. á yfirstandandi ári og vonandi á næsta ári. Hér er um gríðarlega mikilvæg þáttaskil að ræða. Það munu væntanlega margir aðrir fylgja eftir, tugir heyrnarlausra sem hafa orðið af táknmálstúlkaþjónustu í daglegu lífi. Í dómi héraðsdóms segir að ríkið hafi brotið á stjórnarskrárvörðum rétti Snædísar til lágmarksþjónustu, réttindum sem séu fjárlögum æðri. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægur texti í niðurstöðu. Lögmaður Snædísar segir meðal annars að íslenska ríkið hafi í fullri alvöru haldið því fram að því væri heimilt að hafa af þessari ungu konu mannréttindi með þeirri réttlætingu að mannréttindin rúmuðust ekki innan fjárlaga — mannréttindin rúmuðust ekki innan fjárlaga. Lögmaðurinn segir að þetta sé álíka gáfulegt og að segja að konur fái ekki að kjósa í næstu kosningum vegna þess að fjárveiting til kosningamála hafi verið skorin niður.

Þá gætum við verið að tala um miklu fleiri stjórnarskrárvarin réttindi, eins og réttindin til menntunar og réttindin til heilbrigðisþjónustu og réttinn til lífsafkomu lífeyrisþega, og maður veltir fyrir sér hvaða mál gætu fylgt á eftir með þeirri skýringu að mannréttindi verði aldrei toppuð af fjárlögum.

Ég tel að hér sé á okkar borði gríðarlega stórt og mikilvægt umfjöllunarefni sem stafar af dómi héraðsdóms og snúist ekki aðeins um tjáningarfrelsi heyrnarlausra og táknmálstalandi fólks, heldur miklu stærri úrlausnarefni sem bíða okkar í framtíðinni.