144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að Vegagerðin komi að því að ræða einhverjar hugmyndir sem eru innan einstakra sveitarfélaga. Það er gert hringinn í kringum landið. Það er svo allt annað mál hvort ríkið eigi að standa straum af hagkvæmniathugun af sömu stærðargráðu og hér um ræðir. Akureyrarbær hefur farið í hagkvæmniathugun á ýmsum þáttum sem snúa að skipulagsmálum, hvernig hægt sé að auka atvinnustigið og annað, án þess að ríkið greiði fyrir. Sveitarfélög fyrir norðan og í Eyjafirði hafa meira að segja komið sér saman um að rannsaka hvernig megi draga til sín aukið flug o.fl. Ríkið hefur ekki borgað fyrir þær rannsóknir.

Ég er bara að benda á það, virðulegi forseti, að ef menn ætla ríkinu að greiða fyrir þetta þá þurfi að minnsta kosti að liggja fyrir hverjar þessar hugmyndir eru, að þær séu þróaðar á einn eða annan hátt.

Komum aðeins inn á loftslagsmálin. Mín skoðun er sú að það sé hægt að spara útblástur á gróðurhúsalofttegundum með því að koma upp svona léttlestakerfi. Lestirnar munu væntanlega ganga fyrir rafmagni, ekki satt? Einhvers staðar þarf rafmagnið að koma. Við höfum verið að deila hér á landi um virkjanir, jarðvarmavirkjanir o.fl. Hv. þingmaður hefur ekkert verið ánægð með það, að mér hefur fundist.

Að öðru leyti finnst mér járnbrautarlest ekkert sérstaklega fallegt samgöngumannvirki, svo að ég segi það bara hreint út, síst af öllu yfir Hellisheiði, til Akraness eða yfir fallegt hraun. Ég velti því fyrir mér hvort við ættum ekki frekar og hvort það væri ekki raunhæfara að rafbílavæða landið, hvort það væri ekki nær. (Forseti hringir.)

Ég er ekki sammála hv. þingmanni. Ég held að það sé (Forseti hringir.) hægt að ná öllum þeim markmiðum í loftslagsmálum sem hún nefndi (Forseti hringir.) áðan en bara á annan hátt en hér er stefnt að.