144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[13:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin á endastöð í þessum hluta rammaáætlunar. Leiðin hefur verið löng og ströng. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Jón Gunnarsson dró til baka í heyranda hljóði þá ófriðartillögu sem setti hér allt upp í loft ítrekað í vetur. Það er vonandi að meiri hlutinn hafi lært af því.

Mig langar að segja til viðbótar við það sem þegar hefur verið sagt um efni og innihald þeirrar tillögu sem er til umræðu og sú sem hér stendur er andvíg að ég hvet hæstv. umhverfisráðherra — undir hana heyrir rammaáætlun, utanumhald og umsýsla um rammaáætlun — til að halda sérstaklega til haga verndarhluta rammaáætlunar, sem hefur algjörlega verið fyrir borð borinn og fjársveltur bæði hjá umhverfisráðuneytinu sjálfu og hjá Umhverfisstofnun. Ég vænti þess að ráðherrann sé okkur samstiga í því að hefja verndarflokkinn til vegs með myndarlegum fjárframlögum í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016.