144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[13:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Virkjunaráformum stjórnarmeirihlutans hefur verið lýst sem eins konar kappleik um það hve hratt okkur takist að eyðileggja landið í þágu stóriðju, (VigH: Háhitasvæðið?) hversu hratt ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum takist að eyðileggja Ísland í þágu stóriðju. (JónG: Í boði VG.)

Við höfum rætt mikið um rammaáætlun og einstakar virkjanir án þess að fram hafi farið raunveruleg umræða um orkuþörfina. Til hvers? Það eru nokkur ár síðan við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gengum meðfram Þjórsá þar sem nú á að virkja og við sáum stikurnar frá Landsvirkjun sem vissi að það yrði virkjað, hún ætti næga liðsmenn á Alþingi. Nú er þetta að verða að veruleika, því miður.

Ég tek ekki þátt í þessum fögnuði. Ég ætla að standa með Þjórsá. Ég mun segja nei.