144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef verið jákvæður gagnvart alls kyns úrbótum í samgöngumálum og þykir gott að samkomulag sé á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar óttast ég það fordæmi sem hér er verið að gefa. Sveitarfélög víðs vegar um land hafa farið í alls kyns úttektir á málefnum sem snúa að sveitarfélögunum sjálfum, þau hafa lagt út í kostnað án þess að ríkið komi þar að. Mér finnst það óeðlilegt og ég óttast fordæmið sem verið er að gefa í þeim efnum.

Að öðru leyti tel ég að málið sé algjörlega vanbúið. Verið er að taka fyrstu skref, þetta er í rauninni hugmynd. Það liggur ekki fyrir hvernig eigi að þróa þetta, hvar línurnar eiga að koma, hvort byggja eigi undirgöng frá Hafnarfirði inn í miðju Reykjavíkur, en allar þessar hugmyndir kosta ógrynni fjár. Við erum ekki að tala um einhverja milljarða, hér er jafnvel um tugi eða hundruð milljarða að ræða. Ég óttast að ef við leggjum af stað núna (Forseti hringir.) með málið jafn vanbúið og raun ber vitni muni það frekar vinna gegn markmiðum þess en hitt. (Forseti hringir.) Þess vegna mun ég ekki greiða atkvæði (Forseti hringir.) með tillögunni.