144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[11:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór hér mikinn í gær þegar þetta mál var á dagskrá. Má segja að hann hafi hjakkað svolítið í gamla farinu og gaf tilefni til þess að því yrði svarað sem þar kom fram. Hann taldi að svokallaða auðlindarentu væri mjög auðvelt að finna og færði fyrir því ákveðin rök. Þessu heldur hv. þingmaður fram þrátt fyrir að hafa sjálfur stýrt vinnu í fjögur ár við að reyna að komast að hinu eina sanna varðandi auðlindarentu. Sú vinna hefur síðan haldið áfram og hefur þar með staðið yfir í sex til sjö ár. Niðurstaða okkar helstu sérfræðinga á þessum vettvangi er sú að það sé útilokað finna hina einu sönnu auðlindarentu í sjávarútvegi, þ.e. einhvern umframhagnað sem verður til af því að hafa aðgang að takmarkaðri auðlind. Menn þurfa að finna einhverja sanngjarna gjaldtöku sem komið getur frá íslenskum sjávarútvegi til samfélagsins umfram það sem önnur atvinnustarfsemi greiðir almennt. Það hlýtur þó að leiða hugann að því hvernig við ætlum að tryggja samspil þeirrar gjaldtöku af sjávarútvegi og annarra atvinnugreina sem nýta náttúruauðlindir landsins, svo sem ferðaþjónustu og orkuiðnaði. Það hlýtur að vera verkefni okkar í framtíðinni.

Því var einnig haldið fram af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hægt væri að innheimta miklu hærri veiðigjöld. Sjálfur hafði hann hugmyndir um að þar væri um að ræða upphæðir sem gætu numið allt að 25 milljörðum kr. Það er náttúrlega engin samkvæmni í slíkum málflutningi, virðulegur forseti, þegar því er haldið fram á sama tíma og lögð er fram tillaga um að veita aukinn afslátt af veiðigjöldum, eins og tillaga Vinstri grænna ber með sér sem lögð hefur verið fram við frumvarpið.

Fólk verður að tala skýrt. Fólk verður að hætta að blekkingum. Það er alveg lágmarkskrafa að það sé einhver heiðarleiki í umræðunni á Alþingi þegar kemur að þessum málum sem öðrum. Við fórum vel yfir það, margir þingmenn, í eldhúsdagsumræðum í gær hversu mikilvægt það væri fyrir Alþingi að stunda heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð til þess að endurheimta það traust sem við viljum öll að þjóðin hafi á þessari mikilvægu stofnun. Það felst ekki í þeim málflutningi sem stundaður hefur verið um íslenskan sjávarútveg.

Það vantar algerlega tillögur frá Vinstri grænum og reyndar hafði formaður Samfylkingarinnar líka orð á því að verið væri að gefa eftir milljarða verðmæti sem hægt væri að nota í uppbyggingu velferðarkerfisins með þeim lækkunum á veiðigjöldum sem átt hafa sér stað, eins og það var orðað. Sú lækkun er út af fyrir sig orðum aukin, vegna þess að á þessu kjörtímabili hafa verið innheimt hærri veiðigjöld en nokkru sinni á síðasta kjörtímabili, þó að áform síðustu ríkisstjórnar í orði hafi verið þau að fara í einhverja vegferð sem var svo óralangt frá öllum raunveruleika. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að forustumenn þeirra stjórnmálaflokka sem svo tala komi fram með tillögur um hvað stöndugri og sterkari fyrirtækin í íslensku sjávarútvegi eigi að borga í veiðigjöld. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segi fólki það fyrir austan, á Vopnafirði og Þórshöfn, í Neskaupstað og á Reyðarfirði, hversu mikið hann ætlar að taka í skatta af þeim uppsjávarfyrirtækjum sem byggt hafa upp þar gríðarlega öflug og stór fyrirtæki og eru burðarásar í atvinnulífi þess kjördæmis. Það má líka nefna Dalvík og Akureyri í þessu samhengi. En þar komum við að tómum kofanum. Þetta er ekkert annað en orðagjálfur, marklaust orðagjálfur. Ábyrgðarlaust. Algerlega ábyrgðarlaust. Svo er komið hér með yfirboð á afslátt til meðalstórra fyrirtækja sem er reyndar hærri í þessu frumvarpi en hann hefur nokkru sinni verið, líka í samanburði við það sem gerðist á síðasta kjörtímabili.

Það er eitt sem verður að hafa í huga í þessu samhengi og er skýrt dæmi í huga okkar allra sem höfum áhuga á atvinnuþróun í landinu. Við fáum fréttir af Actavis þessa dagana þar sem 300 manna framleiðsluvinnustaður mun hverfa af landi brott innan tveggja ára. Það er vegna hagræðingar í rekstri alþjóðafyrirtækis. Það er heppilegra fyrir þá að stunda ekki framleiðsluna eins og hún hefur verið byggð upp hér á landi þar sem eldavélin er hreinlega of lítil fyrir þá mörgu potta sem elda þarf í á hverjum tíma. Það þarf sem sagt alltaf að vera að skipta um potta á eldavélinni og það tekur tíma. Framleiðslueiningin verður flutt til Búlgaríu, en hjá þessu stóra og öfluga fyrirtæki verða reyndar eftir um 400 störf í landinu sem snúa að lyfjaþróun, lyfjamarkaðssetningu, leyfisveitingum á alþjóðamarkaði og fjármálastjórnun. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá fyrirtækinu stendur ekki til að flytja þá starfsemi, miklu frekar munu menn horfa til þess að styrkja hana.

Auðvitað hefði maður viljað sjá að rekstrarumhverfi svona framleiðslufyrirtækja væri með þeim hætti á Íslandi að þetta fyrirtæki hefði kosið að stækka eininguna á Íslandi og segja: Heyrðu, þarna getum við byggt upp stærri eldavél sem tekur stærri potta og getur afkastað meira. Það er því miður ekki niðurstaðan núna, vonandi tekst okkur samt að nýta það áfram, vonandi koma tækifæri, án þess að það sé nokkuð í hendi, sem nýta áfram þann sérhæfða starfskraft sem byggst hefur upp í þessu fyrirtæki.

En setjum það svo í samanburð við sjávarútveg sem við ræðum hér núna og þá auknu gjaldheimtu sem vinstri flokkarnir tala alltaf um sem sjálfsagða á þessa atvinnugrein. Setjum það í samhengi. Er eitthvert vandamál fyrir íslenskan sjávarútveg að flytja fulla framleiðslu sína á fiskafurðum til útlanda? Til Búlgaríu eða annarra landa í Evrópu? Jafnvel Kína? Bandaríkjanna? Er það eitthvert vandamál? Nei, það er ekkert vandamál, virðulegur forseti.

Norðmenn búa slíkar við aðstæður í sjávarútvegi sínum. Vegna slakrar samkeppnisstöðu þeirra í fullvinnslu sjávarafurða á vinnslan sér stað í mjög litlum mæli í Noregi í samanburði við okkur. Fiskurinn er í miklum mæli fluttur óunninn úr landi. Viljum við skapa slíkt umhverfi hér? Gríðarleg bylting stendur fyrir dyrum í vinnslu á bolfiski þar sem talið er að rekstrareiningarnar muni á næstu árum fara úr því að vera heppilegar eða sjálfbærar, í kringum tvö til þrjú þúsund tonn af vinnslu, upp í 10 þúsund tonna vinnslu. Við munum sjá gríðarlega framlegðaraukningu verða til í íslenskum sjávarútvegi við slíka tæknivæðingu og við munum sjá miklu færri hendur framleiða miklu meiri verðmæti en nokkru sinni áður í bolfiskinum. Við höfum stigið þau skref í uppsjávargeiranum nú þegar. Viljum við bjóða þeirri hættu heim að slíkar verksmiðjur verði reistar á erlendum vettvangi af því að við erum að skapa hér umhverfi sem fælir þessa vinnslu úr landi? Nei, virðulegur forseti. Ég vil það ekki. Ég mun berjast með kjafti og klóm gegn því að slík þróun eigi sér stað á Íslandi.

En það er nákvæmlega það sem liggur í þeim orðum þegar menn tala um að hin öflugri fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi geti verið skattlögð undir drep, geti borgað hér 25–30 milljarða í aukaskatt. Það er greinilega verið að tala um að leggja þennan skatt á örfá fyrirtæki í greininni, sem eru reyndar burðarásar greinarinnar og skapa gríðarleg verðmæti fyrir íslenska þjóð. Menn verða að fara að sýna einhverja ábyrgð og einhvern heiðarleika í þessari umræðu. Það er algjör lágmarkskrafa, og hætta þeim blekkingum sem haldið hefur verið fram gagnvart íslenskri þjóð um það hvað hægt er að gera gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Það er nefnilega of seint í rassinn gripið, virðulegur forseti, ef við förum að missa þá starfsemi úr landi.

Ég kalla eftir því að þingið fari að sýna ábyrgð og festu í þessu. Og ég kalla eftir því að við tökum málefnalega umræðu um það með hvaða hætti við getum hagað starfsumhverfi þessarar greinar, að við tökum saman höndum um það, ábyrgðarfullir aðilar í íslenskri pólitík úr öllum flokkum, að sætta sjónarmið og skapa hér umhverfi sem mun í framtíðinni skila enn meiri verðmætum fyrir samfélag okkar.