144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu spurningu um hvort hér sé búið að stilla þinginu upp fyrir fyrir fram gerðum hlut. Varðandi stöðugleikaframlagsleiðina eða rammaleiðina, sem er valkosturinn við stöðugleikaskattinn, er það eina sem liggur fyrir núna að lykilkröfuhafar hafa sett fram hugmyndir um hvernig þeir geta mátað sig inn í þessi skilyrði og leyst búin án þess að þau valdi álagi á gjaldeyrisforða og lífskjör í landinu og án þess að valda hér efnahagslegum óstöðugleika. Það á alveg eftir að koma í ljós í fyrsta lagi hvort aðrir kröfuhafar fallast á hugmyndir þessara lykilkröfuhafa. Það kemur í ljós hvort þeir samþykkja þessa stefnu á fundum sem haldnir verða núna í framhaldinu, væntanlega á þessu ári, vonandi fljótlega. Það á líka eftir að koma í ljós hvort Seðlabankinn telur að hugmyndir þeirra rími við þær kröfur sem gerðar eru. Framkvæmdahópurinn hefur sagt að það gangi, en Seðlabankinn hefur ekki enn þá gefið lokasvar sitt um hvort hann mæli því að þessum tilboðum eða þessum hugmyndum verði tekið, þ.e. að þær fullnægi settum skilyrðum. Það er mikilvægt að taka fram að þetta eru ekki samningaviðræður. Þeir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Ég held að það sé lykilatriði. Svo á eftir að koma í ljós hvort ráðherra fellst á niðurstöðu Seðlabankans og svo hvort efnahags- og viðskiptanefnd fellst á niðurstöðu þeirra beggja.