144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel reyndar að stöðugleikaskilyrðin séu grundvallarmál og við hv. þingmaður erum mögulega sammála um það. Ég er ekki viss um að því sé rétt lýst þó að stöðugleikaskilyrðin hafi verið kynnt fyrir kröfuhöfum. Það liggur hins vegar fyrir að nokkur slitabú hafa sjálf haft frumkvæði að því að leggja fram tillögu sína að því hvernig þau sjálf geta mætt einhverjum stöðugleikaskilyrðum.

Það er nú bara þannig að við erum að tala um stöðugleika allrar þjóðarinnar. Og eitt slitabú, það er ekki hægt að setja skilyrði fyrir kannski eitt slitabú ef ekki liggur fyrir hvernig önnur slitabú ætla að spila úr hlutunum, þannig að allt þarf þetta að liggja einhvern veginn fyrir, maður þarf að sjá einhverja heildarsýn í því.

Ég tek alveg undir það að auðvitað væri skemmtilegra og gæti verið þægilegra fyrir stjórnmálamenn að fá þetta allt listað upp í excel-skjali, en lífið er kannski sem betur fer ekki excel-skjal og það getur þurft að taka á málum eins og þau koma upp. Lögð er áhersla á það, og rétt er að árétta það hér, að afgreiðsla á hverri einustu undanþágubeiðni frá hverju og einu slitabúi verður metin sjálfstætt. Það þarf að skoða sjálfstætt en þó með tilliti til þess sem er að gerast annars staðar í þjóðfélaginu. Ég vil svo benda á að hv. efnahags- og viðskiptanefnd verða kynntar þær undanþágur sem Seðlabankinn hyggst veita áður en það verður gert. Þá hefur þingið að minnsta kosti einhverja aðkomu að því.

Hvað sölu á bönkunum varðar þá er það nú einmitt efni sem ég mundi síst vilja ræða í þessum þingsal. Ég sem stjórnmálamaður í dag hef engar forsendur til þess að meta það hverjum á að selja þennan banka. Ég vænti þess bara að einhver muni hafa áhuga á að kaupa og geti borgað.