144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þrjár spurningar til hv. þingmanns. Hin fyrsta lýtur að síðustu orðum hv. þingmanns þegar hann velti upp hvort kominn væri á samningur við kröfuhafa. Sjálfur orðaði hann það þannig að kominn væri á óformlegur samningur við þá, a.m.k. lykilkröfuhafana. Þá spyr ég hv. þingmann: Er það þannig að við þingheimur stöndum í reynd andspænis orðnum hlut? Ef ég gerist svolítið grófur og orða það með þessum hætti: Er verið að stilla þinginu upp fyrir hlut sem búið er að ganga frá?

Í öðru lagi, hv. þingmaður fjallaði vel um með hvaða hætti verjanlegt er að eyða því fé sem inn kemur vegna stöðugleikaframlaga. Hann nefndi bréfið sem gekk milli Seðlabankans og ríkisins. En allt umfram það, hvernig má búa um eyðslu þess eða ráðstöfun? Skil ég hv. þingmann þannig að skilningur hans á því sem er sameiginleg niðurstaða efnahags- og viðskiptanefndar sé að allt umfram það þurfi með einhverjum hætti að koma til kynningar hjá efnahags- og skattanefnd?

Síðan vil ég segja um ræðu hv. þingmanns að þetta var glæsileg ræða þar sem var farið vel yfir söguna og gerð ákaflega góð grein fyrir bæði stöðugleikaskattinum og skilyrðunum. Ég sveiflaðist eins og fiðlubogi undir þeirri ræðu, fyrst upp: hv. þingmaður fór mjög langt með að eyða þeim efasemdum sem ég hef um stöðugleikaskilyrðaleiðina. En svo kom hv. þingmaður með það að óvissan væri öll á þeirri leið og að ekki væri einu sinni allsendis víst að stöðugleikaframlögin dygðu eða hvort skilyrðin væru nægilega ströng. Þá spyr ég hv. þingmann: Ætlast hann samt til að ég fylgi honum og leiðtoga lífs míns, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, og segi já við þessu?