144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er sammála því, það er miklu flóknara en svo að bera þessar leiðir saman að því marki sem það er yfirleitt bara sanngjarnt eða menn vilja gera það, enda kemur það rækilega fram í nefndaráliti okkar. Í miklu ítarlegri umfjöllun er það einmitt rakið að sá samanburður þjónar bara takmörkuðu gildi, í fyrsta lagi vegna þess að ef við erum trú þeirri markmiðssetningu þessara aðgerða að þær séu ekki til að afla ríkissjóði tekna þá eigum við auðvitað ekki að vera of upptekin af því heldur miklu fremur hinu, þ.e. leysa þær málið. Í öðru lagi er á þeim umtalsverður munur vegna þess að stöðugleikaskatturinn er þessi hreini skattur með tvenns konar frádráttarmöguleikum sem báðir fela í sér bindingu fjár til langs tíma og fjármögnun banka.

Stöðugleikaframlögin eru hins vegar miklu breiðari. Þau eru fólgin í því að skila beinum verðmætum til ríkisins, lausu fé, þau eru fólgin í því að afhenda kröfusöfn og uppsópsákvæði, þau eru fólgin í ákveðnum skiptum á söluandvirði bankanna, mismun eftir því hvort þeir eru seldir innan lands eða erlendis o.s.frv. Þau eru auðvitað miklu flóknari og má segja fara víðar í hagkerfinu en stöðugleikaskatturinn einn sem kemur bara beint inn í ríkið og síðan frádrættirnir tveir. Að sjálfsögðu þarf að hafa allt þetta í huga þegar maður ber þetta saman. Líka eru þetta auðvitað í grundvallaratriðum algerlega ólíkar aðgerðir. Annað er þvingaður skattur, hitt er valfrjáls leið sem kröfuhafarnir þurfa sjálfir að samþykkja og verður ekki farin nema meiri hluti þeirra vilji það. Þar með hafa þeir ekki upp á neinn að klaga því að það voru þeir sem fóru til héraðsdóms og báðu hann að samþykkja nauðasamninginn og báðu Seðlabankann að staðfesta að hann væri fullnægjandi o.s.frv. Og við vitum hvað það þýðir á mannamáli. Ég vil vera algerlega trúr öllu þessu þegar við ræðum þessar tvær mismunandi leiðir og tel mig vera það og okkur í nefndaráliti okkar. En það breytir ekki hinu að sá gríðarlegi munur sem er á fjárhagslegri útkomu búanna (Forseti hringir.) verðskuldar að ofan í hann sé farið, ekki bara varðandi hina fjárhagslegu útkomu sem slíka heldur til að reyna að skilja hann; af hverju er hann svona mikill?