144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að byrja á fyrri hluta fyrirspurnar hv. þingmanns sem snýr að stöðunni í Evrópu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel, og ég held að mér séu margir sammála, að í krafti þess að við höfum lagasetningarvald, skattlagningarvald og sjálfstæðan seðlabanka, og við þorum að beita þessu, þá erum við í allt annarri stöðu en til að mynda það ágæta land Grikkland sem glímir við mikla erfiðleika núna. Við erum í allt annarri stöðu. Það er dapurlegt að fylgjast með því sem þar er að gerast gagnvart almenningi, gagnvart því hvernig Evrópski seðlabankinn og fleiri aðilar þrýsta á það að láta Grikki skera áfram niður til velferðarmála, láta Grikki einkavæða alþjóðaflugvelli, hafnir, samgöngumannvirki og fleira. Ég hvet hv. þm. Össur Skarphéðinsson til að kynna sér þessi mál betur og fylgjast með, vegna þess að ég hygg að fleiri séu mér sammála um þetta.

Varðandi seinni hluta fyrirspurnar hv. þingmanns sem snýr að stöðugleikaskattinum og stöðugleikaframlaginu. Það sem verið er að tryggja í íslensku samfélagi er fyrst og fremst stöðugleiki. Það er verið að tryggja ákveðinn stöðugleika og það er stóra atriðið. Það hefur enginn sagt hér í þessari umræðu eða í frumvarpinu að markmiðið sé fyrst og fremst tekjuöflunarlegs eðlis vegna þess að markmiðið er fyrst og fremst stöðugleiki. Það að taka einn þátt þarna út eins og hv. þingmaður gerir ber vott um ákveðinn misskilning á stóru myndinni, það eru sex atriði sem rakin eru sem eiga að vera til grundvallar í þessu máli, en hv. þingmaður tekur einungis eitt þeirra út.

Ég vil segja það aftur og ítreka það að þetta snýst um að ná ákveðnum stöðugleika. Við höfum alltaf sagt að það væri (Forseti hringir.) markmiðið að ná slíku, þannig að annað sem hér er tekið fram ber vott um annaðhvort misskilning eða (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður sagði hér áðan gríðarlega einbeittan vilja til þess að spilla þeirri góðu samstöðu og þeim góða anda sem ríkir í þessum fallega sal.