144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mundi nú einhver segja að flokkaðist undir það að reyna að beita sér markvisst fyrir því að reyna að afvegaleiða góða umræðu vegna þess að — (ÖS: Ég er ekki þannig maður.) Hér fer hv. þingmaður fram, þingmaður sem á sínum tíma sagði í tengslum við efnahagsmál að hann væri eins og fiskur á þurru landi í rannsóknarskýrslu Alþingis, (ÖS: Silungur, spriklandi á grasbala.) Íslandsurriði, hér er beitt ýtrustu aðferðum til að reyna að afvegaleiða góða umræðu. Ég verð að segja og ég ætla ekki að bæta neinu við það öðru en því sem ég sagði í ræðu minni áðan, Framsóknarflokkurinn hefur beitt ýtrustu aðferðum til þess að verja hagsmuni Íslands í þessu máli. Hann hefur gert það og það er að koma fram hér í þessum frumvörpum, en að þessir útúrsnúningar skuli koma frá hv. þingmanni sem á síðasta kjörtímabili beitti sér jafnan ítrekað fyrir því að leggjast á hnén fyrir kröfuhöfum, m.a. í Icesave-málinu. Virðulegi forseti, ég held að hv. þingmaður og flokksfélagi minn, Vigdís Hauksdóttir, mundi tala um að þetta væri eins og að kasta gleri úr steinhúsi.