144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sá sérfræðingur í sálarlífi Framsóknarflokksins sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætlar, það er ég ekki. Hvað veldur því að menn fara þessa leið og hafa slegið af frá því sem upphaflega var lagt af stað með skal ég ekki staðhæfa um. Ég geri fastlega ráð fyrir að einhverjar umræður hafi farið fram innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál og ekki endilega gefið að allir hafi verið þar á einu máli. En ég hef enga skýringu á þessu, skoða bara það sem liggur hér á borðinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þegar málið var kynnt í Hörpu á sínum tíma var þetta fyrst og fremst kynnt sem stöðugleikaskattur og þannig gengu menn út úr Hörpu. Það var vísað í aðra leið og hún átti að vera ígildi hennar að verðmæti. Nú kunna að vera ýmsar leiðir til að reikna það út en hún átti að vera það. Síðar kemur á daginn að því fer fjarri þó að við getum ekki verðlagt það vegna þess að þessi framvinda hefur ekki átt sér stað og auk þess er margt á huldu um málið. Hér eru settar fram mjög almennar reglur eða almennur rammi fyrir Seðlabankann að vinna úr en það er ekkert annað en almennur rammi. Og síðan höfum við í þinginu ekkert annað í höndunum en loforð um að efnahags- og viðskiptanefnd verði upplýst um þessa framvindu þegar komið er inn í haustið.