144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[20:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti í dag glæsilega ræðu og það var sú ræða sem ég vildi flutt hafa. Hann fór mjög snöfurmannlega yfir aðdraganda þessa máls, lýsti nauðsyn gjaldeyrishaftanna og hvernig ekki hefði verið hægt að grípa til neinna annarra ráða á þeirri stundu til að bregðast við þeim vanda sem þá steðjaði að þjóðarbúinu. Það er út af fyrir sig rausnarlegt af hv. þingmanni sem þá var í stjórnarandstöðu, en allan þann tíma studdi hann þessar nauðsynlegu aðgerðir.

Hv. þingmaður fór einnig yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde hóf og var síðan haldið áfram af tveimur ríkisstjórnum þar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var annar tveggja forustumanna, fyrst minnihlutastjórnar og síðan meirihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og allt fram til þessa dags. Það verður ekki sagt annað en hv. þingmaður hafi verið stór í sniðum líkt og kollegi okkar, hv. þm. Brynjar Níelsson í prýðilegri ræðu sinni í gær þegar hann lauk lofsorði á verk allra þessara ríkisstjórna. Undir það tek ég. Ég held að allar þessar ríkisstjórnir hafi lagt sig fram og gert sitt besta, svo ég vísi aftur í hina ágætu ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar í gær. Öllum voru að einhverju leyti mislagðar hendur. Öllum urðu að einhverju leyti á mistök. En eigi að síður tel ég að þær eigi allar hrós skilið fyrir það með hvaða hætti þær stóðu að verki.

Ég var á vettvangi og var í hópi fjögurra ráðherra sem stýrðu með vissum hætti viðbrögðum í hruninu 2008 og var á vettvangi þegar menn gripu til þess ráðs að setja neyðarlögin. Mér finnst núna þegar menn horfa til baka að mikilvægt sé að rifja það upp að þar eru tveir menn ekki nægilega lofsungnir sem í okkar röðum voru þá. Það eru þeir Geir H. Haarde forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Saman áttu þeir mestan heiður úr þeim hópi sem hér sat þá að því að setja neyðarlögin. Margar rannsóknir síðan hafa sýnt fram á það að af mörgum valkostum sem þá var hægt að grípa til reyndust neyðarlögin vera langbesti valkosturinn og þegar maður horfir til baka er það í rauninni makalaust miðað við þá hraðskák sem þá var tefld á örfáum dögum. Það finnst mér mikilvægt að komi hér fram. Það var hinn fyrsti punktur endurreisnarinnar.

Menn neyddust á þeim tíma til að setja á gjaldeyrishöft. Það lá við borð að samfélagið stöðvaðist, gjaldeyririnn var upp að yrjast, við áttum varla lengur gjaldeyri fyrir lyfjum, fyrir olíu, fyrir erlendum mat. Ég minnist þess að ég sem iðnaðar- og ferðamálaráðherra á þeim tíma þurfti að hringja sem fulltrúi íslenskrar ríkisstjórnar á erlenda flugvelli til að tryggja að flugvél frá Icelandair kæmist í loftið og heim til Íslands. Svona var staðan. Þetta var það sem leiddi til þess að menn urðu að grípa til gjaldeyrishaftanna. Þau dugðu. Kraftaverk að þjóðfélagið stöðvaðist ekki, má segja þegar maður horfir til baka. Á einni nóttu tókst fyrir tilstilli manna, eins og til dæmis núverandi stjórnarformanns Landsbanka Íslands, Tryggva Pálssonar að sjá til þess að greiðslumiðlunarkerfið stöðvaðist ekki, það var tekið yfir af Seðlabankanum og sömuleiðis átti það góða fólk sem þar vann nótt og dag mikinn þátt í því að tryggja að seðlaforðinn í landinu tæmdist ekki. Allt skiptir þetta máli þegar maður horfir til baka.

Það var síðan verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem við tók, og ekki síst hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem þá var fjármálaráðherra, að taka til óspilltra málanna að reyna að leggja drög að fyrstu viðbrögðunum til að reyna að skapa aðstæður til að hægt yrði í framtíðinni og helst sem fyrst að losa um gjaldeyrishöftin. Fyrsta áætlunin um það kom árið 2009. Sú áætlun, eins og sú sem síðar kom, 2011, tók á þeim vanda sem þá var mest aðkallandi sem voru jöklabréfin, sem voru aflandskrónurnar. Þær höfðu hlaðist upp vegna vaxtamunaviðskipta sem stafaði af ákaflega óheppilegri þróun stýrivaxta Seðlabankans og leiddi til þess að það var fjall af krónum í Seðlabanka Íslands upp á 650–700 milljarða kr. Sumar af þeim voru ákaflega kvikar og höfðu mikinn flótta í augum og var ráðist í að vinna þær niður með uppboðum sem fóru hægt af stað. En smám saman náðist sá árangur að þeim parti þeirra sem vildi hafa hratt á hæli og komast til síns heima tókst að nudda út. Í dag hefur núverandi ríkisstjórn haldið því verki áfram og er forðinn kominn niður í 300 milljarða kr. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði því skóna í sinni ágætu ræðu hér í dag að það þyrfti auðvitað líka og væri næsta verk að því versi loknu sem við erum að kveða hér í dag að hlutleysa þær sem eftir eru, ég er raunar hreint ekkert viss um að þær krónur séu endilega svo fúsar til að fara. Ég er heldur ekkert viss um það eins og vaxtaþróun virðist vera hér á landi og erlendis, ég vísa bara til ákvörðunar sænska seðlabankans í dag um að lækka stýrivexti niður í -0,35%, að það verði endilega jafnmikill flótti af íslenskum krónum sem hér hafa í hafti verið, m.a. í Seðlabankanum, og margir vilja vera láta.

En það var tvennt sem skipti líka mjög miklu máli sem ráðist var í á þessum tíma. Í fyrsta lagi að reyna að teikna upp útlínur þrotabúanna. Á þeim tíma voru þau í laginu eins og amaba, enginn vissi útlínur þeirra. Það tók einfaldlega langan tíma að kortleggja slitabúin. Ég rifja það upp að þegar hæstv. núverandi ríkisstjórn góðu heilli lagði á skatt eða afnam undanþágur tiltekinnar skattlagningar á fjármálafyrirtæki í slitameðferð gekk henni það brösuglega vegna þess að það var ekki algerlega séð hvernig hið skattalega andlag var. Þetta var ástæðan fyrir því að þær hugmyndir sem voru reifaðar fyrir síðustu kosningar, m.a. af þeim sem hér stendur, um að ráðast í slíka skattlagningu, voru ekki færar.

Einnig var það algerlega ljóst þegar leið á síðasta kjörtímabil að krónueignin innan slitabúanna var gríðarleg og mundi leiða vaxandi þrýsting á gengi krónunnar og var með engu móti hægt að hleypa þeim út. Þá þegar hófust menn handa um að teikna upp aðgerðir til að vinna bug á því. Ég rifja það upp að í skýrslu sem unnin var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru meðal annars teiknaðar upp leiðir sem voru í fyrsta áfanga að vinna bug á aflandskrónunum með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Einnig voru þar reifaðar leiðir til að vinna á krónueign slitabúanna og það lá algerlega ljóst fyrir, og breyttist reyndar með merkilegum hætti í meðförum margra sendinefnda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að menn hugðust fara hina suður-asísku leið og setja á útgönguskatt, sem Seðlabankinn vildi að vísu aldrei kalla skatt heldur gjald eða álag. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var í upphafi dálítið tregur til en þegar dró undir 2012 þá reifaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hugmyndir um mjög stífan útgönguskatt.

Það sem skipti hins vegar máli á þeim tíma var að tryggja það til að ná taki á kröfuhöfunum sem klárt var að mundu vilja heimta sitt verð og engar refjar að nauðsynlegt var að læsa þær miklu gjaldeyriseignir sem þeir höfðu yfir að ráða innan íslenskrar efnahagslögsögu og það var gert. Það var sennilega mikilvægasta aðgerðin sem tekin hefur verið til dags dato til að ná vopnum Íslendinga. Og kannski væri það að skemmta skrattanum eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kitlaði lítillega undir hökuskegg sitt áðan að rifja það upp að það var ekki mikill skilningur á því hér í þingsölum.

Á þeim tíma var heill stjórnmálaflokkur sem andæfði því og annar stjórnmálaflokkur sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason tilheyrir, lagði ekki í að styðja það, hann sat hjá. Þegar hæstv. forsætisráðherra flutti örstutta ræðu um stöðugleikaskattinn sennilega fyrir viku tíu dögum og fór yfir það sem hver ríkisstjórn hafði gert til að undirbúa losun hafta, þá var hann nú ekki stærri í sniðum, blessaður, en svo að hann gleymdi því alveg sem gerðist hér 12. mars 2012 þegar við á einni nóttu læstum inni gjaldeyrisforða sem þó var óvirkur innan efnahagskerfisins, þ.e. hann skipti engu máli fyrir efnahagskerfið. Hann hefði getað farið út án þess að það hefði nokkuð sérstök áhrif á það, en með því að notfæra okkur rétt okkar til að setja lög um þetta þá var hann tekinn í gíslingu. Það er kylfan, það er haglabyssan, það er svipan, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sem síðar varð fjármála- og efnahagsráðherra, orðaði það í viðtali við Morgunblaðið, svipan og gulrótin. Ef þið dansið við okkur fáið þið kannski gulrót en ella verðið þið lamdir með svipum.

En til að gæta fyllstu sanngirni, sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fann nú ekki í brjósti sínu þegar hann hélt ræðu sína áðan, og síst vil ég snupra þann þingmann en oft hefur hv. þingmaður haldið betri ræður en þá, þá var það vissulega þannig að þegar við komum með það frumvarp hingað í þingið eftir kl. 5 eftir lokun fjármálamarkaða 12. mars 2012, þá vissu engir af því, okkar þingflokkar vissu ekki af því, einungis örfáir ráðherrar og málið var flókið. Af gæsku míns hjarta vil ég leyfa mér að skýra afstöðu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá þeim tíma með því ef þeir hafa ekki skilið málið. En það er mjög örlátt af mér og ég vil vera örlátur við hv. þm. Ásmund Einar Daðason, en það er auðvitað staðreynd, af því að hv. þingmaður var í ræðu sinni enn einu sinni að tala um eftirlátssemi fyrri ríkisstjórnar og þjónkun gagnvart kröfuhöfum, að rifja það upp að Framsóknarflokkurinn hefur farið undarlegt ferðalag í þessu máli.

Vissulega er það rétt að flokkurinn tók hér upp harða baráttu gegn kröfuhöfum á sínum tíma og ætlaði að ganga frá þeim með kylfum og haglabyssum, eins og frægt var. En hvernig byrjaði Framsóknarflokkurinn sína vegferð? Man einhver eftir því? Man til dæmis sá sem lengst hefur verið hér á vellinum, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, eftir því hvernig hann byrjaði? Jú, í tíð minnihlutastjórnarinnar sem við mynduðum á sínum tíma fór Framsóknarflokkurinn, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, í fræga ferð til Noregs. Ég á hér bunka með 30 fréttum bara af því. Og hvað voru þeir að gera? Jú, þeir fóru bónarveg að Norðmönnum fyrir tilstilli Pers Olafs Lundteigens, félaga þeirra úr Miðflokknum, til að biðja Norðmenn um að lána Íslendingum lánalínu upp á 2.200 milljarða. Hvað segir Fréttablaðið 17. október 2009 um þetta á bls. 2? Þar er mynd af þessum ungu, glæsilegu mönnum, Höskuldi Þórhallssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem þá var nýr formaður Framsóknarflokksins. Fréttablaðið hefur eftir þeim að margt vinnist með slíkri fyrirgreiðslu, til dæmis losni Ísland úr þeirri pattstöðu sem ríki gagnvart Bretum og Hollendingum og vaxtabyrðin verði mun lægri. Með öðrum orðum, eru menn í þessum sal búnir að gleyma því að þingmenn Framsóknarflokksins vildu í upphafi máls ganga lengst allra? Þeir vildu slá pening í útlöndum til að borga Icesave á sínum tíma. Það er ákaflega mikilvægt að það komi fram þegar verið er að tala um eftirlátssemi og þjónkun gagnvart kröfuhöfum. Er ekki rétt að rifja það þá upp núna að það er eins og Framsóknarflokkurinn hafi snúist heilan hring?

Í dag blasir við að íslenska ríkisstjórnin, undir forustu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur lagt fram frumvarp um stöðugleikaskatt, kemur í ljós þegar búið er að kynna frumvarpið að lögð er fram greinargerð sem sýnir það svart á hvítu að þetta má Ísland að alþjóðalögum, við megum gera þetta, og að upp úr því mundi leiða fjárgreiðslur af hálfu kröfuhafa upp á 860 milljarða. Þá kemur í ljós að þegar forsætisráðherra, leiðtogi lífs þessa unga þingmanns og leiðtogaefnis í Framsóknarflokknum sem situr núna úti í sal og ætti að horfa á mig en ekki símann sinn, er búinn að kynna þetta, þegar búið er að leggja fram ýtrustu markmið Íslands, gerist það sama dag að það uppdagast að til er einhver allt önnur leið sem þjóðinni var ekki sagt frá á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem Sigurður „okkar“ Hannesson og Benedikt Gíslason sögðu okkur ekki frá þegar þeir kynntu þjóðinni málið í Hörpu. Það reyndist sem sagt vera til afsláttarleið sem gerir það að verkum að kröfuhafar sleppa með 400 milljörðum minna en liggur fyrir í frumvarpinu sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra lagði fram. Með öðrum orðum, eftir samninga sem hæstv. forsætisráðherra þrætir fyrir að hafi átt sér stað en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er nægilega ærlegur til að segja frá í þessum sal að hafi farið fram og Bloomberg hefur sagt frá, þá verður til hjáleið, einhvers konar afsláttarleið sem gerir það að verkum að kröfuhafarnir fá 400 milljarða afslátt frá stöðugleikaskattinum. Það er alveg makalaust. Hver hefði trúað því fyrir síðustu kosningar að það yrði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var með kylfuna á lofti, sem hefði frumkvæði að því eftir að hafa kynnt beinskeyttan stöðugleikaskatt, að búa til einhverja bakdyraleið fyrir — hvernig var það orðað — lykilmenn í hópi kröfuhafa? Hæstv. forsætisráðherra eða að minnsta kosti handvaldir sendimenn hans, hugsanlega Sigurður okkar Hannesson, sömdu í leyni við kröfuhafa í London og það verður ekki uppskátt fyrr en hæstv. fjármálaráðherra veit að menn eiga ekki að dylja þingið neins, upplýsir það að eigin frumkvæði í flutningsræðu sinni fyrir þessu máli. Það finnst mér mikilvægt að komi fram út af því sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði.

Ég ætla ekki að fara að spilla þessu partíi með svona ræðu. En það var hv. þingmaður sem veitti mér tilefni til þess vegna þess að ég sit ekki undir því af hálfu eins eða neins að sú ríkisstjórn sem ég sat í hafi gengið erinda kröfuhafa. Og ef menn ætla að fara þá leið eins og flokkssystir hv. þingmanns, Vigdís Hauksdóttir, lagði síðustu viku undir, að tala um ríkisstjórn kröfuhafa, hvað má þá kalla ríkisstjórn sem gefur kröfuhöfum afslátt sem er næstum því sjö sinnum meiri en meintur kostnaður vegna Icesave 2? Hvaða ríkisstjórn má þá kalla ríkisstjórn kröfuhafa? Freistnivandinn er mikill en ég stenst þá freistingu. Ég ætla ekki að kalla þessa ríkisstjórn ríkisstjórn kröfuhafa og ég ætla meira að segja að halda því fram að hún hafi lagt fram frumvörp sem eru tæknilega vel útbúin og það er alveg ljóst að sá rauði þráður sem Seðlabankinn hefur haldið í hendi alveg frá fyrstu dögum hrunsins er mjög vel spunninn. Seðlabankinn á hrós skilið fyrir þetta mál alveg eins og ríkisstjórnin. Og ríkisstjórnin á sérstaklega hrós skilið fyrir stöðugleikaskattinn.

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum. Ég sagði strax í upphafi máls, þegar hæstv. forsætisráðherra kynnti á flokksþingi Framsóknar hugmyndir sínar um stöðugleikaskatt, að mér litist vel á þær. Þær byggja á sömu hugmyndafræði og þær sviðsmyndir sem teiknaðar voru upp af Steinari Þór Guðgeirssyni hæstaréttarlögmanni í tíð síðustu ríkisstjórnar og voru nota bene kynntar þremur þingmönnum á tveimur fundum; Þór Saari, núverandi hæstv. forsætisráðherra og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, þannig að þeir kannast nú við þær afurðir. Það var bara flott hugmynd og hún er pottþétt og ég skil hana meira að segja. Ég skil af hverju skatturinn er 39% en ekki 38% eða 40%. Síðan kemur þessi sérkennilega hjáleið til sögunnar sem aldrei var kynnt og tók menn marga daga að átta sig á að væri til. Það var ekki fyrr en kröfuhafarnir fóru að ljósta upp fagnaðarópum og þegar það sem einn fjölmiðill kallaði ofsagleði braust út í hópi þeirra sem fóru að skoða hana. Það er mjög erfitt fyrir mig að taka afstöðu til þessarar leiðar. Ég veit ekki stöðugleikaskilyrðin. Enginn hefur getað reiknað út fyrir mig stöðugleikaframlögin. Ég er í þeirri stöðu að ég skil málið ekki til fulls þó að ég hafi reynt eins og mér frekast er unnt að gera það og ég hefði gjarnan viljað hafa þrjár, fjórar vikur og þess vegna mánuði til að reyna að skilja það. Þetta er hið flóknasta mál en líklega það mikilvægasta sem ég mun standa frammi fyrir á þessu kjörtímabili.

Ég verð að taka afstöðu út frá mönnum sem ég treysti, eins og hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, Vilhjálmi Bjarnasyni og Steingrími J. Sigfússyni. Þessir menn, sem ég treysti í þessum efnum, hafa skoðað þetta, sitja í nefndinni og komast að þeirri niðurstöðu að hjáleiðin sé í lagi fyrir Íslands hönd. Ég tel að hin sé tryggari, ég tel að óvissan sé öll tengd hjáleiðinni. Hvað á þá þingmaður (Forseti hringir.) eins og ég, sem vill vinna vinnuna sína og vera krítískur, að gera þegar hann skilur málið ekki fullkomlega?