144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[20:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Þá ætti hv. þm. Ásmundur Einar Daðason að fara til Ólafs Elíassonar og fá hjá honum almennilega lexíu í mannasiðum. Hv. þingmaður getur ekki gert ráð fyrir því að hann geti komið hér á skítugum skóm og vaðið yfir mig eða nokkurn annan í ræðustól án þess að menn grípi til varna.

Það var hv. þingmaður sem fór fram með ásakanir gagnvart mér og þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Þá finnst mér að það sé fullt tilefni að hv. þingmaður taki fram spegil og horfist í augu við sjálfan sig og spyrji: Er þetta maðurinn (Gripið fram í.) sem stendur frammi fyrir tveimur valkostum? Báðir kostirnir verja fjármálalegan stöðugleika Íslands, annar skilar í ríkissjóð 860 milljörðum, hinn skilar 400 milljörðum minna. Af hverju velja þá þeir sem hafa alltaf tala um að ekki eigi að semja við kröfuhafa heldur berja þá með kylfum, það eigi að ganga fram með ýtrasta hætti gegn þeim þetta, af hverju eru það kröfuhafarnir sem hafa forustuna?

Ég get ekki svarað því en ég veit hins vegar að menn sem sýna slíkt eftirlæti gagnvart kröfuhöfunum ættu ekki að vera að tala um að aðrir séu haldnir óhóflegri linku gagnvart þeim.