144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

787. mál
[10:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál sem hér eru greidd atkvæði um er til vitnis um það að ríkisstjórnin og nú þingið vill greiða fyrir gerð nauðasamninga með tilteknum lagabreytingum. Þetta mál fjallar í sjálfu sér ekki um stöðugleikaframlagið, en sú leið hefur verið opin frá því að fjármagnshöft voru sett hér á landi árið 2009 að undanþágur væru veittar. Með skattafrumvarpinu er því svarað hvaða skilyrði menn eiga að uppfylla til þess að geta fengið undanþágur. Þeir þurfa að greiðslujafnaðarleysa einstök slitabú.

Þeir sem tala í þessari umræðu eins og hv. þm. Kristján Möller eru þeirrar skoðunar að ríkið eigi hér að fara í tekjuöflunaraðgerð, um það eigi málið að snúast. Við erum að svara því með þeim frumvörpum sem við erum að afgreiða í dag að við erum að leysa greiðslujafnaðarvanda, við erum ekki í tekjuöflunaraðgerðum. Og þeir sem fara þá leið sem hér birtist í umræðunni að bera saman tekjurnar, bara beinar tekjur til ríkissjóðs annars vegar af skattinum og hins vegar af stöðugleikaframlaginu, (Forseti hringir.) þeir eru bara á einhverri annarri vegferð og fari þeir bara sína leið.