144. löggjafarþing — 147. fundur,  3. júlí 2015.

þingfrestun.

[13:42]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Hv. alþingismenn. Störfum þessa löggjafarþings er nú senn að ljúka. Þetta þing hefur um margt verið sérstætt. Þetta er með allra lengstu löggjafarþingum, hófst 9. september sl. og lýkur nú í dag, 3. júlí. Þingfundir eru orðnir 147 og þingfundadagar 126. Þá hafa fastanefndir þingsins haldið um 600 fundi. Þingfundir, umræður og atkvæðagreiðslur hafa staðið í um 830 klukkutíma. Í samanburði við nágrannaþing okkar er þetta miklu meira en þar tíðkast og er það allmikið umhugsunarefni. Almennt má segja að í samanburði við önnur þing sem standa okkur nærri sé fyrirferð starfanna hér í þingsalnum, og þar með umræðurnar, meiri en þar og oft einnig af öðrum toga. Á hinn bóginn er vinnan í nefndum og annars staðar innan þingsins minni.

Stór mál hafa verið lögð fyrir þetta þing og sum þeirra mjög umdeild. Þetta löggjafarþing hefur á hinn bóginn skilað góðu verki að mörgu leyti. Samþykkt lagafrumvörp og ályktanir eru að tölu áþekk og verið hefur undanfarin ár, 105 lagafrumvörp og 22 ályktanir. Í þeim hópi eru stór og stefnumarkandi mál sem mikil áhrif hafa haft og munu hafa. Ég hygg þó að samþykkt hinna svokölluðu haftafrumvarpa fyrr í dag verði að teljast í senn mikilvægasta og merkasta löggjöf þessa þings og þótt lengra sé leitað. Í þeim skilningi er 3. júlí 2015 augljóslega sögulegur dagur. Það er sérstaklega ánægjulegt að um þessi mál hafi skapast svo víðtæk og góð sátt sem raun ber vitni um. Undirbúningur frumvarpanna var ítarlegur og vandaður, vinnan í þingnefndinni til fyrirmyndar og umræðurnar hér í þinginu almennt málefnalegar og upplýsandi. Segja má að samþykkt laganna í dag marki þáttaskil. Þessi lagasetning er einhver mikilvægasta varðan á leið okkar til framtíðar út úr hinum miklu efnahagsáföllum sem hér dundu yfir. Nú getur þing og þjóð horft til nýrra verkefna á komandi árum.

Þingstörfin í vetur og vor, og nú fram á sumar, hafa fjarri því gengið fyrir sig eins og ég hefði kosið. Starfsáætlun fór úr skorðum og þinghaldið hefur dregist til mikilla muna. Ég get ekki hér og nú leynt vonbrigðum mínum með það, persónulegum vonbrigðum, enda hef ég lagt áherslu á að starfsáætlun standist og það ekki að ástæðulausu.

Það var rauður þráður í máli flestra ræðumanna í eldhúsdagsumræðunum í fyrrakvöld, jafnt stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, að endurskoða þyrfti vinnubrögðin hér á Alþingi. Þetta var einkar eftirtektarvert. Nú vil ég taka þingmenn á orðinu. Það er mikilvægt að bregðast við og vinna rösklega og markvisst að því að gera breytingar, sem ég veit að þingmenn í hjarta sínu óska eftir. Verði allir alþingismenn og ráðherrar tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þeirrar endurskoðunar hef ég trú á því að góðir hlutir gerist. En þá dugar ekki að skyggnast bara eftir flísinni frægu í auga náungans. Við þurfum öll, undanbragðalaust, að líta okkur nær.

Ég vil ítreka og leggja áherslu á að það eru ekki eingöngu reglurnar, þingsköpin, sem helst þurfa endurbóta við heldur ekki síður hitt, hvernig við umgöngumst leikreglurnar og hvaða stjórnmálamenningu við viljum hafa á Alþingi. Að mínu mati er það sjálfstætt og óumflýjanlegt verkefni að breyta þeirri stjórnmálamenningu sem hvílir eins og farg á þinginu. Og það stendur engum nær en okkur sjálfum að ráða á þessu bót því að við vitum best hvar eldurinn brennur á okkur. Ég leyfi mér því að varpa fram þeirri hugmynd að forustumenn flokka, eða fulltrúar þeirra, setjist niður og fari yfir þennan þátt sérstaklega í því skyni að sammælast um leiðir til að vinna hér bót á.

Mikið er í húfi að Alþingi öðlist þann trausta sess í huga þjóðarinnar sem það verðskuldar og er umfram allt svo þýðingarmikill í þágu þjóðarhags. Alþingi er hvorki meira né minna en æðsta stofnun þjóðarinnar. Þess vegna má kalla það æðstu skyldu okkar sem hér störfum í umboði fólksins í landinu að stuðla að aukinni virðingu löggjafarsamkomunnar. Í því sambandi er að mörgu að hyggja.

Brýnt er að bæta undirbúning löggjafar og aðstöðu Alþingis til þess að afgreiða lög. Það er sífellt viðfangsefni. Margt hefur sannarlega áunnist með öflugra starfi hér innan þingsins, en við þurfum að gera enn betur.

Ég hef nefnt stjórnmálamenninguna. Öll vitum við að bæta þarf og skipuleggja betur umræður í þingsal, þ.e. þann hluta þingstarfanna sem er almenningi sýnilegur. Það þýðir þó alls ekki að skera eigi umræður niður við trog. Fátt jafnast nefnilega á við góðar og efnisríkar umræður. Þetta á ekki síst við um umræður þar sem menn með ólík sjónarmið takast á, jafnvel af hörku. Það er enda eðlilegt þar sem við erum fólk með ólíkar skoðanir og hugmyndir og Alþingi á vitaskuld að vera virkur vettvangur alvörupólitískrar umræðu. Því er hins vegar ekki að neita að allt of oft saknaði ég slíkra umræðna nú í vetur.

Það er ekkert að því að menn taki stórt upp í sig í ræðustólnum, tali svo undan svíði, orðin úr ræðustólnum komi blóðinu á hreyfingu, menn fari með himinskautum og kalli fram í af hnyttni þegar það á við. En slíkt á ekkert skylt við fúkyrðaflaum, uppnefni, svigurmæli og meiðandi ummæli.

Í nútímaþjóðfélagi er hvarvetna gerð krafa um gott skipulag, jafnt í fjölskyldulífi, atvinnulífi, námi og störfum. Samfélagsgerðin krefst þess bókstaflega. Ef Alþingi verður að þessu leytinu á skjön við það sem gerist og gengur í samfélaginu almennt mun það draga úr áhuga fólks — og í þessu sambandi nefni ég sérstaklega ungt fólk og konur — til þess að taka þátt í stjórnmálum, ekki síst hér á vettvangi Alþingis. Það yrði hörmulegt og í raun stórháskalegt fyrir þjóðfélagið. Þetta breytir því þó ekki að þingmennskan er og verður óhjákvæmilega á margan hátt einstætt starf. Eðli málsins samkvæmt er vinnan okkar erilsöm, kallar á fjarvistir frá fjölskyldu og vinnutíma sem er óhefðbundinn á margan hátt. Undan þessu er engin ástæða til að kvarta. En það breytir því ekki að við getum sjálf gert ýmislegt til þess að þingstörfin verði skilvirkari og laði til sín gott og hæfileikaríkt fólk með fjölþættan bakgrunn.

Það er fleira sem hangir á þessari spýtu. Þingmannsstarfið einskorðast fráleitt við þingfundi og nefndastörf þeim tengd. Alþjóðlegt starf þingmanna fer vaxandi, þingmenn þurfa og eiga að sinna fjölþættum skyldum í kjördæmum sínum, rækta tengsl við kjósendur, þekkja æðaslátt samfélagsins, sinna margvíslegum málefnalegum undirbúningi og vera almennt virkir í hinni fjölbreyttu flóru mannlífsins. Á síðustu mánuðum er augljóst að allt þetta hefur setið á hakanum í allt of ríkum mæli hjá allt of mörgum okkar. Þannig á það ekki að vera. Gott skipulag og starfsáætlun sem stenst í meginatriðum er liður í því að bæta úr þessum ágöllum.

Hinu má jafnframt ekki gleyma að mjög margt í störfum Alþingis er til mikillar fyrirmyndar og vekur jafnvel undrun og ánægju þeirra sem fyrir utan standa en eiga þess kost að kynnast vinnubrögðum Alþingis. Í þingnefndum er umræðan jafnan hófstillt, málefnaleg og sanngjörn og þar er unnið af vandvirkni. Alþingi er líka sjálfstæðara í störfum sínum en mörg önnur þjóðþing þar sem framkvæmdarvaldið er miklu áhrifameira við lagasetninguna en gildir hér. Alþingi hefur því þrátt fyrir allt sterka stöðu í íslensku stjórnkerfi og í íslensku stjórnmálalífi og þannig á það að vera. Þetta er öfundsverð staða, sem við hljótum að vilja varðveita og efla, líkt og okkar góði félagi og vinur Pétur Blöndal var óþreytandi að minna okkur á allt til hinstu stundar. Þessari arfleifð hins merka og sjálfstæða þingmanns skulum við halda á lofti.

Ég vil enn fremur minna á hlutverk fjölmiðla í þessu sambandi, þeir eru áhrifamiklir og skoðanamótandi og ábyrgð þeirra því að sama skapi mikil.

Nú þegar þinghaldi er að ljúka vil ég hvetja alþingismenn til þess að nota sumarhléið, sem þó verður ekki langt að þessu sinni, til að hugleiða þessi mál, fara yfir störf okkar og framgöngu á þessu löggjafarþingi, draga lærdóm af reynslunni og móta í huga sér hvernig megi bæta úr þeim ágöllum sem við öll sjáum og höfum haft á orði að laga þurfi. Það má ekki undan dragast. Við skulum ekki fresta því til loka kjörtímabils að spyrna við, heldur setjast niður þegar í haust og einhenda okkur í að ráða hér bót á. Og þá er gott að hafa í huga hinn gamla góða íslenska málshátt, að sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Við höldum brátt út í hið dásamlega íslenska sumar, njótum þess og förum til annarra þingmannsstarfa sem hafa setið á hakanum að undanförnu. Í haust hittumst við svo aftur, nærð af tilbreytingunni, nestuð af nýjum hugmyndum og albúin til góðra verka sem endranær þegar nýtt þing verður sett hinn 8. september nk. Ég lít svo á að það sé hlutverk mitt sem forseta Alþingis, forsætisnefndar, formanna þingflokka og þingskapanefndar að finna góðum hugmyndum farveg í þágu Alþingis og þjóðarinnar.

Ég vil við lok þessa fundar þakka hv. alþingismönnum fyrir samstarfið. Starfsfólki Alþingis þakka ég sömuleiðis fyrir þess mikilvægu störf. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og vænti þess að við hittumst öll heil á nýju þingi.