145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að það kemur nokkuð á óvart að heyra svona digurbarkalegar yfirlýsingar frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem var í ríkisstjórn og studdi ríkisstjórnina frá 2007 í landbúnaðarmálum. Og nú þegar hefur þessi ríkisstjórn gert mun meira í frjálsræðisátt en síðasta ríkisstjórn. Reyndar var það þannig að í útboðsreglum þeirrar ríkisstjórnar var talað um kvóta á innfluttum matvælum, en það var nokkuð sem var sem betur fer snúið við og þær breytingar sem ríkisstjórnin sem hv. þingmaður sat í gerði væru svo sannarlega seint taldar í frelsisátt og fleira mætti nefna.

Ég vona að hv. þingmaður hafi verið að misskilja mig viljandi þegar hann segir að ekki séu allir með silfurskeið í munni og við séum að tala gegn því að þurfa að skuldsetja sig til að kaupa húsnæði. Það er ekki hægt að bjóða þingheimi upp á þennan málflutning. Það er búið að fara yfir það hvað eftir annað yfir það að þeir fjármunir sem við erum að setja í húsnæðismálin eru gríðarlega miklir. Það er mikilvægt að þeir nýtist við að hjálpa fólki við að eignast húsnæði. Þannig hefur fyrirkomulagið ekki verið. Hérna áður fyrr hitti ég fólk sem kom frá endurskoðandanum sínum og fékk ráðleggingar um það að fá sér meiri lán til að fá vaxtabætur því annars mundu vaxtabæturnar detta niður. Þetta er óskynsamleg aðferð til að hjálpa fólki til að eignast húsnæði vegna þess að eðli málsins samkvæmt þurfa næstum því allir að taka lán til að kaupa sér húsnæði. (Gripið fram í.) Við erum að tala um að nýta fjármunina betur til að hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Ef við hefðum gert það frá því að við vöktum athygli á þessu, frá 1995, væri staðan hjá almenningi í landinu miklu betri.