145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Okkur almennum þingmönnum er nú nokkuð þröngt skorinn stakkurinn í umræðum. Við höfum hér fimm mínútur til að ræða þetta risavaxna mál en ég ætla að gera mitt besta og halda mig aðallega við stóru myndina. Það er mjög ánægjulegt að þetta frumvarp, eins og frumvörpin undanfarin ár, staðfestir og ber með sér að batinn heldur áfram í íslenskum efnahagsmálum, samfelldur bati sem í raun hefur verið frá því að hagkerfið sneri við í árslok 2010. Hæstv. fjármálaráðherra hefur einmitt undanfarið, svo ég hafi tekið eftir, nokkrum sinnum talað um að þetta sé að verða lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið í sögu þjóðarinnar og vísar þá að vísu að einhverju leyti til spáa um framhaldið. Það gæti vel farið svo að við værum, ef bærilega gengur áfram, að upplifa eitt samfelldasta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar. Það er miklu málefnalegri nálgun en sú sem hæstv. forsætisráðherra hefur orðið sér til skammar með og margir hafa gert að umræðuefni hér í dag, en hann reyndi ítrekað í stefnuræðu sinni að koma því inn hjá þjóðinni að allur batinn hefði fallið til á síðustu tveimur árum og væri þar af leiðandi sér að þakka eða sinni ríkisstjórn. Hann sagði til dæmis, með leyfi forseta, í stefnuræðunni:

„Fá dæmi eru um að lönd hafi náð sér jafn hratt á strik efnahagslega og Ísland á síðustu tveimur árum.“

Og seinna sagði hann, sem var líka rangt:

„Efnahagslega hefur Ísland vaxið hraðast Evrópuþjóða frá 2013.“ — Frá 2013.

Veruleikinn er sá að Ísland skar sig miklu meira úr á árunum 2011–2013 þegar miklir erfiðleikar voru enn þá í Evrópu sem sumpart eru nú ekki búnir. Á þeim árum var hagvöxtur á Íslandi einn sá mesti innan OECD og mældist hæsti eða næsthæsti öll árin í Evrópu, vissulega vegna þess að Evrópa var þá í núlli eða mínus, sem var auðvitað ekki gott. Þannig var hagvöxturinn bæði 2011 og 2013 meiri en hann var á fyrsta heila ári þessarar ríkisstjórnar, þ.e. í fyrra. Þá var lægri hagvöxtur en bæði 2011 og 2013. Auðvitað dæmir þetta sig sjálft.

Maður getur velt fyrir sér, í fyrsta lagi, forseti: Veit forsætisráðherra íslenska lýðveldisins ekki betur? Sitjum við uppi með forsætisráðherra sem er svona hryllilega illa að sér að hann setur þetta á blað í stefnuræðu sinni? Í öðru lagi: Er hæstv. forsætisráðherra einfaldlega svona ósvífinni? Er hann að reyna að gera tilraunir til að fá einhverja til að trúa því að þetta sé svona í alvöru? Eða í þriðja lagi og það er sú skýring sem ég hallast mest að: Hæstv. forsætisráðherra er bara svona lítill. (VigH: Er svona?) — Lítill. (VigH: Lítill?) Hann getur aldrei unnt neinum þess að hafa gert eitthvað af viti nema sjálfum sér.

Batinn á afkomu ríkissjóðs stafar af nokkrum samsettum þáttum. Það má segja að það sé tvennt sem aðallega skýrir hann, það er að allt frá árinu 2009 til og með 2013 voru í gangi markvissar aðgerðir til þess að styrkja tekjugrunn ríkisins samhliða því að dregið var úr útgjöldum eins og kostur var. Það leiðir síðan aftur til þess að efnahagsbatinn skilar sjálfkrafa auknum tekjum ár frá ári í ríkissjóð. Þar komu til sögunnar svokallaðir margfaldarar, þ.e. skattstofnarnir gefa meira af sér án þess að hækkuð sé ein einasta skattprósenta. Þetta tvennt, aðgerðirnar til að ná hlutunum saman með tekjuöflun og sparnaði allt síðasta kjörtímabil og svo sú staðreynd að þegar hagkerfið tekur við sér þá skilar hagsveiflan sjálfkrafa auknum tekjum í ríkissjóð, hefur leitt til þess að núverandi ríkisstjórn hefur það auðvitað mjög þægilegt, hún þarf ekki mikið að gera. Best hefði verið ef hún hefði ekki gert neitt því að þá væri staðan enn þá betri vegna þess að ríkisstjórnin hefur þrátt fyrir allt sleppt út umtalsverðum tekjum sem við gætum verið að nota þessi missirin til að annaðhvort gera betur á ákveðnum sviðum eða einfaldlega greiða hraðar niður skuldir. Ríkisstjórnin valdi samt aðra leið. Þetta er hægt vegna þess að svigrúmið skapast af þessum efnahagsbata, en veikleikarnir byrja strax að myndast vegna þess að þar með verður ríkið aftur háðara þenslutekjunum sem hverfa eins og dögg fyrir sólu ef hagsveiflan snýst við. Það benda meðal annars hagfræðingar á í umfjöllun um frumvarpið í dag.

Það eru líka að byggjast upp veikleikar í versnandi afkomu sveitarfélaga. Við verðum að horfa á hið opinbera í heild, ekki bara ríkið. Flest stærstu sveitarfélögin bjuggu við versnandi afkomu milli ára. Það eru allt of litlar fjárfestingar. Fjárfestingar ríkisins upp á 1,2% út áætlunartíma ríkisfjármálaáætlunar eru hörmung, það segir okkur að ekki verði byggður neinn landspítali, það verði ekki lagðir neinir vegir og það gengur auðvitað ekki upp. (Forseti hringir.) Því miður, þó að margt sé til að gleðjast yfir varðandi hina almennu stöðu (Forseti hringir.) og við fögnum því að batinn haldi áfram, þá eru líka hlutir sem valda manni djúpum vonbrigðum.