145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er afskaplega ánægð með það fjárlagafrumvarp sem hér hefur verið lagt fram. Það er margt þar í sem vert væri að ræða í löngu máli, til að mynda breytingar á skattkerfinu sem fela í sér einföldun og munu leiða af sér aukna skilvirkni, og afnám tolla sem boðað er í frumvarpinu. Það mun í fyrsta lagi taka gildi nú um áramótin og koma síðan að fullu til framkvæmda að ári. En það er ekki það sem ég ætla að nota minn stutta tíma í hér heldur ætla ég að ræða aðeins um hagræðingu.

Hagræðing hefur verið rædd í lengd og breidd á þessu kjörtímabili. Ég sat í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar sem skilað hefur af sér ýmsum breytingum, en það er eitt sem við munum sjá til framtíðar sem verður aðalmálið hjá okkur hvað varðar hagræðingu í framtíðinni, það er að nýta betur þá tækni sem til staðar er og þá staðreynd að Íslendingar eru afskaplega netglöð þjóð. Við getum gert miklu betur í því að nýta þá kosti og þá staðreynd okkur til hagsbóta. Við getum sett meiri kraft í að efla starfsemi stjórnsýslunnar hvað þetta varðar þannig að aðgengi allra Íslendinga að því að sækja sér þjónustu, sækja sér gögn og sækja um leyfi fyrir ýmsu, sé að miklu leyti komið yfir á internetið.

Þess vegna er rétt að vekja athygli á texta sem er á bls. 16 í litla ritinu sem fylgir fjármálafrumvarpinu, Stefna og horfur, þar sem fjallað er um þetta atriði, opinber innkaup og rafræna stjórnsýslu. Fjármálaráðuneytið fór í athugun á því hvað hægt væri að gera og eins er hópur að störfum í innanríkisráðuneytinu sem er að taka saman tillögur um með hvaða hætti hægt er að keyra þetta verkefni áfram. Miðað við þann texta sem birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu er ástæða fyrir okkur til að vera vongóð um það að þetta sé framtíðin. Þess ber að geta að t.d. í Danmörku líta stjórnvöld svo á að 40% af öllum hagræðingarmöguleikum í ríkisrekstrinum felist í þessu, að þar séu möguleikarnir. Við þekkjum öll hvernig tekist hefur til varðandi skil á skattskýrslum sem nú eru að langmestu leyti komnar yfir á rafrænt form. Það kostaði sitt á sínum tíma að fara í þær breytingar en ég fullyrði að það hefur leitt af sér betri skattskil, einfaldara utanumhald og hefur þar með sparað okkur fjármuni og sparað íbúum þessa lands mörg handtök. Ég fullyrði að ekkert okkar mundi vilja hverfa til baka til þess tíma þegar við skiluðum skattskýrslum inn handvirkt á pappír í pósthólf skattstofunnar. Svona verkefni tekur auðvitað langan tíma og því verður kannski aldrei lokið, en með bættri upplýsingatækni og aukinni samræmingu milli stofnana og ráðuneyta hvað þetta varðar tel ég fullljóst að við getum náð miklum árangri og auknum ábata fyrir samfélagið allt.

Herra forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu vegna þess að mér þykir athyglivert að fjallað sé með þessum hætti um málið í fjárlagafrumvarpinu. Ég bind miklar vonir við að á næstu árum munum við ræða þetta verkefni enn frekar í þessum sal vegna þess að hagsmunir okkar allra felast í því að þeim fjármunum sem við notum til þess að reka hér það kerfi sem nauðsynlegt er til þess að þjónusta íbúana, sé varið á sem hagkvæmastan hátt.